Haukar jöfnuðu metin í úrslitaeinvíginu í gærkvöldi með 51-60 sigri í Ljónagryfjunni. Síðustu tvö kvöld hafa verið viðburðarík í Ljónagryfjunni og nú er svo komið að það er aðeins einn leikur eftir í allri Subwaydeild kvenna þetta tímabilið. Oddaleikur um Íslandsmeistaratitilinn! Nýliðarnir okkar, Ljónynjurnar frá Njarðvík mæta í Ólafssal á sunnudag og þar verður Íslandsmeistari krýndur. Græna hjörðin hefur verið frábær í stuðningi sínum við bæði lið og næstu tvo daga eru stærstu leikir félagsins á tímabilinu.
Á laugardag fer karlaliðið á Krókinn í leik fjögur og freistar þess að koma rimmunni við Tindastól í oddaleik. Kvennaliðið verður svo í Hafnarfirði á sunnudag og hefst oddaleikurinn kl. 19:15, við mætum græn!
Hér að neðan má sjá helstu umfjallanir um fjórða leikinn í úrslitum kvenna í gær en af okkar konum er það að segja að Aliyah Collier fór fyrir Njarðvík með 27 stig og 20 fráköst og næst henni var Lavina De Silva með 8 stig og 8 fráköst. Þennan leikinn voru það þristarnir sem neituðu að rata rétta leið, aðeins 9% þriggja stiga nýting og það getur verið þungt þegar þeir detta ekki. Við erum sannfærð um að þeir rati rétta leið í oddaleiknum.
#ÁframNjarðvík
Helstu umfjallanir um fjórða leik:
VF.is: Njarðvík náði ekki að landa titlinum á heimavelli
Karfan.is: Haukar með sigur í hitaleik í Ljónagryfjunni – úrslitin ráðast á sunnudaginn
Mbl.is: Haukar knúðu fram oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn
Vísir.is: Haukakonur tryggðu sér oddaleik
Mynd með frétt/ Jón Björn Ólafsson – jbolafs@gmail.com