Njarðvík 80 ára: Pretty Boi Tjokko hitar upp fyrir Njarðvík-Þór Þ.Prenta

Körfubolti

Candy floss í boði Macron

Miðvikudaginn 10. apríl verður Ungmennafélag Njarðvíkur 80 ára! Þennan sama dag hefst úrslitakeppnin hjá Njarðvík í Subway-deild karla þegar Þór Þorlákshöfn kemur í heimsókn í Ljónagryfjuna kl. 19.30. Ungmennafélag Njarðvíkur ætlar að hrinda afmælisárinu úr vör með pompi og prakt þann 10. apríl og blása til veislu í Ljónagryfjunni!

Á afmælisdaginn verður hægt að gæða sér á alvöru grillborgurum frá 17.45 í FanZone-tjaldinu við Gryfjuna. Þá verður Candyfloss á boðstólunum fyrir alla krakka í boði Macron og um 18.30 verður það enginn annar en einn allra heitasti tónlistarmaður landsins Pretty Boi Tjokko sem mun keyra upp fjörið fyrir leik.

Þá verður Kökulist með veglega Njarðvíkur-afmælistertu í hálfleik hjá Njarðvík og Þór Þorlákshöfn.

Viðureign Njarðvíkur og Þórs úr Þorlákshöfn í 8-liða úrslitum Subway-deildar karla hefst svo kl. 19.30. Þetta er fyrsti leikurinn í úrslitakeppninni hjá Njarðvík og verður ekki annað sagt en að þetta sé eina alvöru leiðin til að hefja úrslitakeppnina.

Alvöru veisla fyrir alvöru Njarðvíkinga
Sjáumst í Ljónagryfjunni á 80 ára afmælinu

#FyrirFánannOgUMFN