Tíundi flokkur Njarðvíkur tók þátt á Scania Cup í Svíþjóð um páskana og hafnaði þar í 6. sæti. Hópurinn lék til úrslita í fyrra en í ár varð liðið að sætta sig við nauman ósigur gegn Herlev í 8-liða úrslitum og lék því um 5.-8. sæti mótsins. Herlev hélt svo förinni áfram og varð Scania meistari en Scania Cup er óopinbert Norðurlandsmót félagsliða í körfubolta.
Í riðlakeppninni fékk Njarðvík Aabyhoj frá Danmörku og Oppsal frá Noregi þar sem unnust öruggir sigrar. Úrslitaleikurinn um sigurinn í riðlinum var svo gegn AIK frá Svíþjóð þar sem þær sænsku höfðu eins stigs sigur. Njarðvík fór því í úrslitakeppnina í 2. sæti riðilsins og mætti þar í 8-liða úrslitum BMS Herlev frá Danmörku. Þær dönsku höfðu betur 54-41 eftir spennuslag og því lék Njarðvík um 5.-8. sæti.
Í fyrstu umferð um sætaröðun vann Njarðvík góðan 50-68 sigur á Lou frá Finnlandi en okkar konur máttu svo sætta sig við 56-40 ósigur gegn Malbas frá Svíþjóð í leik um 5. sætið og því lauk Njarðvík keppni í 6. sæti þetta árið.
Flottur hópur sem hefur gert tvær góðar ferðir í röð á Scania Cup en að þessu sinni var Kristín Þóra Möller fararstjóri í ferðinni, Bruno Richotti þjálfari og Logi Gunnarsson aðstoðarþjálfari.
Njarðvíkurliðið vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem liðsinntu þeim við þetta skemmtilega og eftirminnilega ferðalag en sérstakar þakkir fá eftirtaldir aðilar:
Reykjanesapótek
RISS
Lögmannsstofa Reykjaness
Reykjanesbær
Mynd/ JBÓ: 10.flokkur Njarðvíkur ásamt þjálfurum í ferðinni.