Njarðvík tekur á móti Hamri í Subway-deild karla í kvöld kl. 19:15 í Ljónagryfjunni. Alls fimm leikir eru á dagskrá úrvalsdeildar karla í kvöld en nokkuð er á milli liðanna í stöðutöflunni um þessar mundir. Þrátt fyrir þá staðreynd er rétt að minna á að Hamarsmenn unnu sinn fyrsta deildarleik í síðustu umferð þegar þeir lögðu Breiðablik.
Fyrir kvöldið er Njarðvík í 2.-4. sæti deildarinnar með 26 stig eins og Grindavík og Keflavík en ljónin okkar eiga leik til góða síðan í heitavatnsleysinu er Njarðvík átti að leika heima gegn Breiðablik.
Með leik kvöldsins eru því 8 stig eftir í pottinum fyrir okkar menn og leikirnir sem eftir eru með kvöldinu í kvöld eru gegn Hamri, svo Blikum 18. mars í Ljónagryfjunni, 28. mars er El Classico í Blue-höllinni og í lokaumferðinni tökum við á móti Val þann 4. apríl. Nóg framundan og nú er rétti tíminn til að fjölmenna á pallana og styðja okkar menn til sigurs!