Njarðvík heimsækir Hamar í blómabæinnPrenta

Körfubolti

Fimm leikir fara fram í Subway-deild karla í kvöld. Ljónin frá Njarðvík leggja þá land undir fót og mæta Hamri í Hveragerði kl. 19:15. Þrátt fyrir að liðin séu á toppi og botni deildarinnar þá er ekkert gefið í úrvalsdeildinni þetta árið og það vita okkar menn!

Hamar leikur sem nýliði í deildinni þetta árið en úrvalsdeildina þekkja þeir engu að síður og hafa oftsinnis látið vel að sér kveða meðal þeirra bestu. Sem fyrr eru hér tvö dýrmæt stig á ferðinni og því ekki úr vegi fyrir Njarðvíkinga að gera sér ferð í blómabæinn og styðja ljónin til sigurs.

Í síðustu umferð vann Njarðvík risasigur á nágrönnum Hvergerðina þegar liðið lagði Þór Þorlákshöfn 103-76. Hamarsmenn að sama skapi lágu 87-69 gegn Breiðablik. Fyrir kvöldið er Njarðvík á toppi deilarinnar með 12 stig en í 2.-8. sæti deildarinnar með 10 stig eru Valur, Stjarnan, Þór Þorlákshöfn, Tindastóll, Höttur, Keflavík og Álftanes. Það geta því orðið verulegar sviptingar í töflunni með hverri umferð.

Leikir 9. umferðar Subway-deildar karla

Leikir kvöldsins fimmtudaginn 30. nóvember
Haukar – Höttur 18.30
Hamar – Njarðvík – 19:15
Keflavík – Breiðablik – 19:15
Valur – Grindavík – 19:15
Þór Þorlákshöfn – Tindastóll – 19:15

Föstudagur 1. desember
Stjarnan – Álftanes – 19:15