Njarðvík er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarkeppni KSÍ, eftir 0-1 sigur á nágrönnum okkar úr Keflavík, í framlengdum leik á Nettó- vellinum í kvöld. Njarðvík hóf leik undan norðan golu og voru ívið sterkari aðilinn í fyrrihálfleik. Nokkur tækifæri sköpuðust sem ekki nýttust og heimamenn áttu einnig sínar rispur, án þess að skapa of mikinn usla.
Í síðari hálfleik snérist dæmið að nokkru leiti við og Keflvíkingar sóttu mun meira og settu töluverða pressu á okkur en náðu ekki að skapa nein dauðafæri, þó vissulega hafi hurð skollið verulega nærri hælum. Okkar piltar áttu samt nokkrar mjög hættulegar skyndisóknir og voru í raun óheppnir að gera ekki eitt eða tvö mörk og áttu skot í stöng. Bæði lið voru að leggja sig mikið fram við að spila boltanum í vindinum og eiga leikmenn beggja liða í raun hrós skilið fyri það. Þó að góður dómari leiksins þyrfti að bæta við heilum 9 mínútum í uppbótartíma rann leiktíminn út án þess að skorað væri og því var gripið til framlengingar, eins og áður sagði.
Í framlengingunni var það hinn skoski Kenneth Hogg, sem gerði sigurmark okkar á annarri mínútu framlengingar, með glæsilegu bogaskoti. Það sem eftir var af framlenginunni skiptust liðin á að sækja án þess að fleiri mörk voru skoruð.
Ákaflega ánægjulegur sigur okkar mann sem sagt á erkifjendunum og besti árangur Njarðvíkur í bikarkeppninni staðreynd. Þó skyggði það á gleðina, að miðvörður okkar Toni Tipuric handarbrotnaði þegar um hálftími lifði leiks og verður frá í a.m.k. 6 vikur. Þessi úrslit geta vel talist sanngjörn, Njarðvíkurliðið í heild lagði mikla baráttu í þetta verkefni og eiga hrós skilið. Þá var virkilega gaman að sjá stuðningsfólk okkar fjölmenna annan leikinn í röð og vonandi verður framhald á því!
Næsti leikur okkar er á laugardaginn þegar við heimsækjum Fjölni í Grafarvoginn.
Leikskýrslan Keflavík – Njarðvík
Fóbolti.net – viðtal við Rafn Markús
Fótbolti.net – skýrslan
Fótbolti.net – viðtal við Brynjar Atli
Vísir.is – umfjöllun og viðtöl
Myndirnar eru úr leiknum í kvöld.