Mæta Grindavík í baráttunni um sæti í Domino´s-deildinni
Þá er það ljóst. Okkar konur í Njarðvík mæta Grindavík í úrslitum 1. deildar kvenna um laust sæti í Domino´s-deildinni á næstu leiktíð. Njarðvík sópaði í kvöld Ármanni í sumarfrí og slíkt hið sama gerðu Grindvíkingar gegn ÍR. Chelsea og Helena leiddu liðið áfram í stigaskorinu í kvöld, Chelsea með 24 stig og 10 stolna bolta og Helena með 19 stig og 7 fráköst.
Þuríður Birna og Lára voru báðar mættar í búning í kvöld eftir smá meiðslaglímu undanfarið og létu þær vel til sín taka.
Ljónynjur tóku snemma völdin í veiðilendunum en Ármenningar héngu í þeim framan af leik, staðan 40-28 í hálfleik. Í þriðja leikhluta sprengdu Njarðvíkingar leikinn upp og stungu af, staðan 60-38 fyrir fjórða og eftirleikurinn auðveldur. Lokatölur í kvöld 76-56. Mögulega ekki áferðafallegasti leikur liðsins á tímabilinu en baráttan í fyrirrúmi en sigurinn kom því miður ekki að kostnaðarlausu. Þegar skammt var eftir af fjórða meiddist Kamilla Sól á ökkla og varð að bera hana af velli. Við vonum að þetta sé ekki alvarlegt og sendum baráttukveðjur.
Næst á dagskrá er því úrslitarimma gegn Grindavík. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki öðlast sæti í Domino´s-deild kvenna á næstu leiktíð.