Nú er 8-liða úrslitum senn að ljúka í Subway-deild kvenna. Þetta tímabilið var í fyrsta sinn keppt eftir nýju fyrirkomulagi í efstu deild. Fyrst var hefðbundin deildarkeppni með leikjum heima og að heiman, því næst var deildinni skipt upp í A og B hluta og að því loknu var ljóst hvaða lið myndu skipa úrslitakeppnina og hvaða lið færi í umspil við lið í 1. deild.
Í 8-liða úrslitum mættust Keflavík og Fjölnir þar sem Keflavík komst áfram, Grindavík og Þór Akureyri þar sem Grindvíkingar komust áfram og í gær tryggðu ljónynjurnar okkar sér 3-1 sigur á Íslandsmeisturum Vals og komust áfram. Aðeins ein viðureign er eftir í 8-liða úrslitum og er það glíma Hauka og Stjörnunnar. Staðan í því einvígi er 2-1 Hauka í vil en liðin mætast aftur á morgun sunnudaginn 21. apríl þar sem Stjarnan þarf að vinna til að knýja fram oddaleik eða þá að Haukar komast í undanúrslit með sigri. Sigurvegarinn í þessari rimmu mætir Keflavík í undanúrslitum og Njarðvík og Grindavík mætast í hinu einvíginu.
Það var svo Snæfell sem fór í umspil í 1. deild og mætti þar Tindastól þar sem Stólarnir höfðu 3-1 sigur er ljóst að Snæfell leikur í 1. deild kvenna á næsta tímabili.
Njarðvík er að taka þátt í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna í sjötta sinn frá því úrslitakeppnin hófst árið 1993. Fyrsta þátttakan var árið 2003 þegar Njarðvík mætti Keflavík í úrslitum og tapaði þar 2-0 en félagið varð svo Íslandsmeistari kvenna í fyrsta sinn árið 2012. Hér að neðan má sjá þátttöku Njarðvíkurliðsins í úrslitakeppni kvenna frá upphafi.
Þátttaka kvennaliðs Njarðvíkur í úrslitakeppni úrvalsdeildar
2003: Töpuðu 2-0 í undanúrslitum gegn Keflavík (úrslitakeppni hófst í undanúrslitum)
2011: Töpuðu 3-0 í úrslitum gegn Keflavík (úrslitakeppni hófst með umspili fyrir undanúrslit)
2012: Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins – sigruðu Hauka 3-1 í úrslitum (úrslitakeppni hófst í undanúrslitum)
2022: Íslandsmeistarar í annað sinn í sögu félagsins – sigruðu Hauka 3-2 í úrslitum (úrslitakeppni hófst í undanúrslitum)
2023: Töpuðu 3-1 í undanúrslitum gegn Keflavík (úrslitakeppni hófst í undanúrslitum)
2024: Úrslitakeppnin hefst í fyrsta sinn í sögu úrvalsdeildar kvenna á 8-liða úrslitum
Fyrstu fimm skiptin mættust Njarðvík og Grindavík ekki í úrslitakeppninni svo nú í sjötta sinn eru þessi tvö öflugu Suðurnesjalið að mætast í úrslitakeppninni. Bæði lið hafa áður orðið meistarar en Grindavík hefur einu sinni unnið Íslandsmeistaratitilinn en það var árið 1997 þegar þær sópuðu KR 3-0 í úrslitum.
Þegar viðureign Hauka og Stjörnunnar lýkur í 8-liða úrslitum er von á að leikskipulag fyrir undanúrslitin liggi fyrir. Það er svakaleg rimma í vændum Njarðvíkingar svo stífpressið grænu bolina og brýnið söngröddina.
Áfram Njarðvík!