Njarðvík og Rafholt klár í stuðiðPrenta

Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og Rafholt hafa framlengt styrktar- og samstarfssamingi sínum fyrir tímabilið 2020-2021. Rafholt hefur um árabil verið ötull samstarfsaðili deildarinnar. Það voru Kristín Örlygsdóttir formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og Rúnar Kjartan Jónsson einn eigenda Rafholts ásamt syni Rúnars honum Frosta Kjartani sem innsigliðu samninginn á meðan æfingaleikur Njarðvíkur og Hattar fór fram.

Rafholt er framsækið fyrirtæki sem starfar jafnt á útboðsmarkaði og í þjónustu við fyrirtæki og stofnanir. Stefna fyrirtækisins er að veita alhliða þjónustu á sviði raflagna og fjarskipta þar sem áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð og framúrskarandi árangur. Rafholt er einn stærsti atvinnurekandi rafverktöku á Íslandi með um 100 starfsmenn og verktaka á sínum snærum.

Þá er gaman frá því að segja þó eflaust flestir séu staðháttum kunnir í þessum efnum en í eigendahópi Rafholts eru tveir kappar sem báðir eiga leiki að baki í meistaraflokki Njarðvíkur en það eru Rúnar Kjartan Jónsson og Helgi Rafnsson. Annar ötull stuðningsmaður á pöllunum er Vilhjálmur Magnús Vilhjálmsson þjónustustjóri.

Mynd/ JB