Njarðvík semur við þrjá nýja leikmenn: Verður gaman að sjá liðið spila í veturPrenta

Körfubolti

Njarðvíkurkonur hafa styrkt leikmannahópinn fyrir komandi átök í Subway-deild kvenna. Þrír leikmenn hafa samið við félagið á undanförnum dögum og verður gaman að fylgjast með þessum körfuboltakonum í Njarðvíkurtreyjunni í vetur.

Tynice Martin er frá Bandaríkjunum en spilaði á síðasta tímabili með Vive í Finnlandi við góðan orðstír. Tynice er 180cm fjölhæfur bakvörður sem getur leyst margar stöður á vellinum.

Andela Strize er Króati sem hefur spilað í heimalandinu allan sinn feril ásamt því að spila með yngri landsliðum Króatíu. Andela er 24 ára bakvörður sem skoraði 17 stig að meðaltali með liði Medvescak á síðustu leiktíð.

Ena Viso kemur svo til okkar frá Danmörku en Ena er hávaxinn bakvörður sem getur leyst stöðu leikstjórnanda. Hún spilaði afar vel með liði BK Amager á síðustu leiktíð og var m.a. valin Bakvörður Ársins á Eurobasket í dönsku deildinni. Ena er 30 ára og hefur spilað með danska landsliðinu á síðustu árum og kemur með mikla reynslu inn í Njarðvíkurliðið.

„Ég er virkilega spenntur að fá þessa leikmenn til liðs við okkur – þær eru allar ansi fjölhæfar og með mörg vopn sóknarlega ásamt því að vilja setja tóninn varnarlega. Allar hafa þær verið leiðtogar í sínum félagsliðum og berum við miklar væntingar til þeirra á því sviði líka. Ég get allavega lofað að það verður gaman að horfa á Njarðvíkurliðið spila körfubolta í vetur,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkurliðsins.