Nýr fáni fer á vegginn í Ljónagryfjunni innan tíðar því í kvöld varð Njarðvík VÍSbikarmeistari eftir frækinn 97-93 sigur á Stjörnunni. Dedrick Deon Basile var valinn besti maður leiksins með 24 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.
Dómarar leiksins töldu í og leikmenn tóku vel undir og staðan 29-26 fyrir Njarðvík eftir fyrsta leikhluta sem Logi Gunnarsson lokaði með flautuþrist. Fotis og Nico voru stigahæstir eftir fyrsta, báðir með 8 stig. Í öðrum leikhluta minnkaði fjörið ekki neitt, okkar menn náðu að slíta sig aðeins frá í 10 stiga forystu en Stjarnan minnkaði muninn í 49-54 fyrir hálfleik. Fotist atkvæðamestur okkar manna með 16 stig í fyrri hálfleik, Nico 11 og þeir Logi og Dedrick báðir með 8.
Í þriðja leikhluta kviknaði verulega undir Dedrick Basile sem kom Njarðvík á skrið með þremur þristum, Mario og Fotis komu með huggulegar troðslur og okkar menn gengu á öllum sílindrum, staðan 64-80 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Eitthvað pikkleysi kom í sóknarleikinn hjá grænum í fjórða leikhluta og hægt en bítandi náði Stjarnan að minnka muninn í fjögur stig 82-86. Lengra komust Garðbæingar ekki og grænir kláruðu verkið 97-93 og hömpuðu í lokin sínum níunda bikarmeistaratitli í sögunni.
Dedrick var eins og áður segir maður leiksins en Fotios Lampropoulos skilaði 20 stigum, 5 fráköstum og 3 stoðsendingum og Mario Matasovic bætti við 17 stigum og 9 fráköstum. Logi fyrirliði Gunnarsson kom inn af bekknum með 14 stig og Nico var eins með 14.
Geggjaður sigur þar sem þriðji leikhluti vó þungt. Það verður að hrósa græna hafinu sem mætti í stúkuna, þvílíkur stuðningur og stemmning á pöllunum.
Mynd/ Skúli: VÍSbikarmeistarar Njarðvíkur