Kynningarfundur Körfuknattleikssambands Íslands á komandi vetri í Domino´s-deildum karla og kvenna fór fram í dag. Venju samkvæmt voru spár birtar og náðu þær einnig yfir 1. deild karla og 1. deild kvenna að auki. Skemmst er frá því að segja að Ljónynjunum úr Njarðvík er spáð sigri í 1. deild kvenna á komandi vetri!
Í spánni sem gerð er af formönnum, þjálfurum og fyrirliðum í Domino´s-deild kvenna hlaut kvennalið Njarðvíkur 186 stig í 1. sætinu en skammt á hæla okkar komu Fjölniskonur með 176 stig en liðin mættust einmitt í undanúrslitum 1. deildar kvenna á síðasta tímabili þar sem Fjölniskonur höfðu betur og komust í úrslit.
Um helgina hefur kvennalið Njarðvíkur dvalið í Ungverjalandi við keppni og æfingar en hópurinn er væntanlegur aftur til landsins í dag og þá hefst lokaundirbúningurinn fyrir fyrsta leik í 1. deild kvenna. Ljónynjurnar hefja leik á útivelli þann 5. október með því að heimsækja Hamar og hefst leikurinn kl. 15.00 í Blómabænum Hveragerði. Fyrsti heimaleikur liðsins er svo þann 13. október þegar ÍR mætir í Njarðtaks-gryfjuna kl. 16.00.
Spáin fyrir 1. deild kvenna
Njarðvík 186
Fjölnir 176
Tindastóll 132
ÍR 106
Keflavík b 80
Grindavík b 64
Hamar 26
Mynd/ Skúli – Kvennalið Njarðvíkur tímabilið 2019-2020.