Njarðvíkurliðin opna nýjan áratug með fjórum stigum!Prenta

Körfubolti


Körfuboltinn er farinn að skoppa á nýjan leik eftir jólafrí og Njarðvíkurliðin opna þennan nýja áratug með sigrum. Kvennaliðið með góðri ferð og tveimur stigum í Hveragerði og karlaliðið skellti ÍR í Njarðtaksgryfjunni í gærkvöldi.

Því miður hefur enn ekki tekist að ná inn tölfræði úr leik Hamars og Njarðvíkur frá 4. janúar síðastliðinn en þennan vindasama laugardag lögðu Ljónynjurnar land undir fót, tóku storminn í fangið á Suðurstrandarvegi og nýttu meðbyrinn heim með tvö góð stig. Liðið er í harðri toppbaráttu í 1. deild kvenna og ernú með 16 stig eins og Tindastóll en Fjölnir vermir toppinn með 20 stig og Keflavík b hefur 18 stig. Næsti leikur kvennaliðsins er heima gegn ÍR þann 12. janúar og það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi þessa leiks enda jöfn og spennandi deild í gangi þetta tímabilið.

Ljónin lönduðu svo sínum sjöunda sigri í röð í gærkvöldi þegar liðið skellti ÍR 88-64. Chaz Williams var þar stigahæstur með flotta tvennu er hann gerði 20 stig og gaf 12 stoðsendingar. Nýji maðurinn Aurimas Majauskas komst vel frá sínum fyrsta leik með 18 stig og slíkt hið sama gerði Mario Matasovic með 18 stig og 7 fráköst. Kristinn Pálsson átti líka flotta spretti með 15 stig og 8 fráköst, flottur liðssigur og Njarðvík komið með innbyrðisviðureignina gegn ÍR í sarpinn.

Rétt eins og kvennamegin er það hver stórleikurinn sem rekur annan karlamegin því næst á dagskrá er ferðalag norður í Skagafjörð þar sem liðið mætir Tindastól. Það verður forvitnilegt að fylgjast með Stólunum í kvöld sem mæta Keflavík á Sunnubrautinni. Í dag eru Njarðvík, Keflavík og Tindastóll öll með 16 stig en það breytist eftir kvöldið þar sem Keflavík eða Tindastóll munu fara í 18 stig og baráttan um deildarmeistaratitilinn harðnar með hverri umferðinni.

Myndasafn: Njarðvík-ÍR
Tölfræði: Njarðvík-ÍR