Sumarið er annasamasti árstíminn í fótboltanum og er búið að vera nóg um að vera hjá yngri flokkum knattspyrnudeildarinnar í sumar. Yngri flokkar félagsins eru komnir í stutt sumarfrí fram yfir verslunarmannahelgi. Eftir verslunarmannahelgi byrjar svo boltinn aftur að rúlla með fjölmörgum leikjum og mótum í ágúst og byrjun september. Hér fyrir neðan verður stiklað á því helsta sem hver flokkur hefur verið að gera í sumar.
3. flokkur drengja
Strákarnir í 3. flokki eru á fullu á Íslandsmótinu og eru að standa sig vel í C deildinni. Þeir hafa spilað níu leiki. Unnið fimm, gert eitt jafntefli og tapað þremur. 3.fl Njarðvíkur er eins og staðan er núna í fjórða sæti af níu liðum. Þjálfari flokksins er Þórir Rafn Hauksson og honum til aðstoðar er Fernando Valldares.
4. flokkur drengja
Njarðvík skráði tvö lið til leiks í Íslandsmótinu. 4.fl kk spilar í C deildinni. A liðið er búið að spila sex leiki þar sem þrír leikir hafa unnist og þrír tapast. Þeir eru eins og staðan er núna í þriðja sæti af sex liðum. Í liði tvö hjá Njarðvík spila bæði strákar og stelpur og er ótrúlega gaman að sjá hvað stelpurnar okkar gefa strákunum ekkert eftir. Lið tvö er einnig búið að spila sex leiki þar sem einn leikur hefur unnist, eitt jafntefli og fjögur töp. Auk þess að keppa á Íslandsmótinu tók 4. flokkurinn okkar þátt í Rey Cup um daginn og skemmtu sér vel. Þjálfari flokksins er Jón Ásgeir Þorvaldsson.
5. flokkur drengja
Í 5. flokknum æfa um 50 iðkendur. 5. flokkurinn er með fimm lið skráð til leiks á Íslandsmótinu í A, B, C og D liða keppni. 5. flokkurinn spilar í B deild í Íslandsmótinu og eru öll liðin fimm að standa sig virkilega vel í sterkri deild. Þá tók flokkurinn að sjálfsögðu þátt á N1 mótinu á Akureyri í byrjun júlí. Þjálfarar flokksins eru þeir Ingi Þór Þórisson, Daníel Örn Baldvinsson og Júlíus Arnar Pálsson.
5. flokkur stúlkna
Stelpurnar okkar í 5. flokknum eru búnar að standa sig rosa vel en í flokknum æfa um tuttugu stúlkur. VIð erum með tvö lið skráð til leiks á Íslandsmótinu. Ásamt því að taka þátt á Íslandsmótinu þá fór flokkurinn bæði á TM mótið í Vestmannaeyjum í júní og Símamótið í júlí. Á TM mótinu lenti lið 2 í öðru sæti í sinni deild og fóru á verðlaunapall þar sem þær tóku á móti verðlaunapening. Á Símamótinu stóðu bæði liðin sig einnig virkilega vel þar sem lið 1 vann sína deild og fékk bikar að launum og lið 2 tapaði í úrslitaleik. Þjálfari flokksins er Daníel Örn Baldvinsson og honum til aðstoðar er Dagmar Þráinsdóttir.
6. flokkur drengja
Í flokknum æfa tæplega 50 drengir. Eldra árið fór á hið árlega Orkumót í Vestmannaeyjum í júní en við sendum tvö lið til leiks í ár. Þá fór yngra árið á Set mótið á Selfossi í júní. Auk þess að fara á þessi stóru sumarmót hefur flokkurinn farið á mörg önnur dagsmót og gengið vel. Þjálfarar flokksins eru Ingi Þór Þórisson, Daníel Örn Baldvinsson og Júlíus Arnar Pálsson.
6. flokkur stúlkna
Stelpurnar í 6. flokki eru búnar að fara á fullt af mótum í vor og sumar. Aðalmót sumarsins var Símamótið í Kópavogi þar sem við skráðum tvö lið til leiks. Bæði lið stóðu sig vel og skemmtu stelpurnar sér vel á þessu stærsta móti ársins. Flokkurinn fór einnig á Vís mótið í Laugardalnum í maí og Lindexmótið á Selfossi og stefnan er svo sett á Weetos mótið í Mosfellsbæ í ágúst. Þjálfarar flokksins eru Dagmar Þráinsdóttir, Fannar Sigurpálsson og Reynir Aðalbjörn Ágústsson.
7. flokkur stúlkna
Í flokknum eru bráðefnilegar stúlkur sem elska að spila fótbolta. Þær tóku þátt á Símamótinu í Kópavogi. Við vorum með tvö lið á mótinu og stóðu bæði lið sig mjög vel. Stelpurnar eru einnig búnar að fara á önnur minni dagsmót í sumar eins og Vís mótið og Lindex mótið og hafa stelpurnar ávallt staðið sig feykivel. Þjálfarar flokksins eru Dagmar Þráinsdóttir, Fannar Sigurpálsson og Reynir Aðalbjörn Ágústsson.
7. flokkur drengja
Í flokknum æfa tæplega 50 drengir. Stórmót sumarsins í 7. flokki drengja er Norðurálsmótið á Akranesi sem fór fram í júní. Njarðvík tók þátt á mótinu og stóðu strákarnir sig með sóma. Flokkurinn hefur einnig farið á nokkur önnur mót í vor og sumar og strákarnir ávallt skemmt sér konunglega enda fátt skemmtilegra en að eltast við og sparka í bolta. Þjálfarar flokksins eru Freyr Brynjarsson, Fannar Sigurpálsson og Júlíus Arnar Pálsson.
8. flokkur
Í flokknum æfa bæði strákar og stelpur saman. Í sumar er búin að vera frábær þátttaka og hafa í kringum 40 börn verið að mæta á æfingar undir stjórn Freys Brynjarssonar og aðstoðarþjálfara hans. Æft er tvisvar í viku á þriðjudögum og fimmtudögum og er stefnan sett á mót í ágúst.