Ný ásýnd Njarðvíkur
Markmiðið með endurmörkuninni var að móta ásýnd félagsins með því að byggja á sögu þess. Við skoðun á einkennum félagsins í gegnum tíðina fundust sérkenni sem skáru sig úr, eins og broddaletrið í fyrsta merki UMFN frá 1969 og útgáfunni sem notuð var í tilefni 40 ára afmælis félagsins.
Í tilefni af 80 ára afmæli félagsins var hannað sérstakt merki sem vísar til eldra merkis UMFN, sem var einfaldara en núverandi útgáfa. Þetta merki var oftast notað í einlita útgáfu, en einnig í blárri og rauðri útfærslu.
Þó að UMFN sé nú þekkt fyrir grænan lit hefur það ekki alltaf verið þannig. Árið 1958 sótti félagið um keppnisbúninga hjá ÍSÍ, þar sem bolurinn var „blár með gulum uppslögum, gulum kraga og hvítum stöfum“, ásamt svörtum buxum og gulum sokkum. Til er ljósmynd frá 1965 sem sýnir lið UMFN í körfuknattleik keppa í þessum búningum gegn HSK. Í seinni tíð hefur græni liturinn verið ríkjandi hjá UMFN, en liturinn hefur þó tekið ýmsum breytingum. Í þessari vinnu lögðum við áherslu á að finna hinn sanna Njarðvíkurgræna lit, sem yrði notaður til framtíðar. Við sóttum innblástur í gullaldarskeið félagsins í byrjun 21. aldarinnar þegar körfuknattleiksdeildin var í hvað mestum blóma.
Leturvalið endurspeglar tvö lykiltímabil í sögu UMFN. Annars vegar árið 1971, þegar körfuboltaliðið bar skammstöfun félagsins á bringunni í látlausu letri og hins vegar árið 1969, með vísun í upprunalega merkið með einkennandi broddaletri.
Ljónið í nýja merkinu tengir við íþróttahús Njarðvíkinga, Ljónagryfjuna, sem og stuðningssveitir félagsins í körfuboltanum, sem oft eru kallaðar ljónin. Merki ljónanna er byggt á gamla skjaldarmerki Njarðvíkurbæjar (Njarðvíkur Nirðinum), þar sem sjávar-kóróna prýðir topp ljónsins. Ljónið er einnig teiknað inn í form merkis félagsins til að tryggja að táknin tali vel saman.
Hönnuður ásýndar er Anton Jónas Illugason.