Ný stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur var kjörin á auka-aðalfundi deildarinnar þann 5. júní síðastliðinn. Fundarstjóri var Hámundur Örn Helgason framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Njarðvík.
Halldór Karlsson var áfram kjörinn formaður deildarinnar en með honum í aðalstjórn voru kjörin þau Ólafur Bergur Ólafsson, Emma Hanna Einarsdóttir, Hilmar Örn Arnórsson og Gísli Gíslason. Í varastjórn voru kjörin þau Freyr Brynjarsson, Sigmundur Lárusson og Aníta Carter.
Halldór Karlsson formaður ávarpaði fundinn og þakkaði fráfarandi stjórnarliðum kærlega fyrir góð störf í þágu Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Sagði hann árangur Njarðvíkurliðanna góðan á tímabilinu 2023-2024 þar sem karlaliðið hafnaði í 3.-4. sæti og kvennaliðið hafnaði í 2. sæti eftir úrslitaeinvígið í Subway-deild kvenna. „Framundan bíður okkar Njarðvíkinga það verkefni að hefja starfsemi á nýjum heimavelli í Stapaskóla. Bæjaryfirvöld hafa tjáð deildinni að Stapaskóli verði reiðubúinn til afhendingar þann 29. júlí næstkomandi. Á komandi tímabili verðum við því á nýjum stað og mikið af spennandi hlutum í gangi enda eru vinsældir körfuboltans sífellt að aukast,” sagði Halldór.
Mynd/ Halldór Karlsson formaður KKD UMFN