Nýtt tímabil vaxtar og samstöðu hjá UMFNPrenta

Körfubolti

Íþróttir eru og munu ávallt verða ein af grunnstoðum þess samfélags sem við viljum búa í og byggja upp. Í sameiningu sköpum við sterka og samheldna heild sem stendur þétt saman – hvort sem við horfum til lýðheilsu, menntunar, uppeldis barna og ungmenna, eða afreksíþrótta. Uppbyggingin sem nú er í vændum hér í Reykjanesbæ opnar dyr að ótrúlegum tækifærum til vaxtar og eflingar. Við fáum að halda áfram að sinna samfélagslegri ábyrgð okkar af enn meiri krafti og með betri aðstöðu.

Fyrir hönd KKD UMFN vil ég senda bæjarstjórn, Hafsteini Ingbergssyni og öllu hans frábæra starfsfólki og öðrum sem hafa staðið að þessu, bestu þakkir. Sérstakar þakkir fyrir dugnaðinn, framtíðarsýnina og kjarkinn til að sjá þau tækifæri sem blómlegt íþróttastarf skapar fyrir okkur öll.

Með opnun IceMar-hallarinnar og nýtingu Stapaskóla, sem gegnir svo mikilvægu hlutverki fyrir UMFN, erum við að tryggja sterkari stöðu félagsins. Dagleg vinna félagsmanna, sjálfboðaliða og iðkenda er ómetanleg – við erum að fjárfesta í heilsu, vellíðan og heilbrigði framtíðarinnar. Við erum að styrkja æskulýðs- og forvarnarstarf og gera UMFN enn samkeppnishæfara.

Til hamingju Njarðvík, til hamingju Reykjanesbær og til hamingju öll með IceMar-höllina við Stapaskóla! Þetta er aðeins byrjunin á enn stærri sigrum og bjartari framtíð!

Þá vil ég hvetja alla Njarðvíkinga til að fjölmenna í IceMar-Höllina í kvöld kl. 19:15 þar sem Ljónynjurnar okkar taka á móti Tindastól í sínum fyrsta leik á nýjum og glæsilegum heimavelli.

Halldór Karlsson
Formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur

Mynd/JBÓ