Öflugur sigur á Haukum og upp í 4. sætiPrenta

Körfubolti

Njarðvík vann í kvöld sinn fjórða deildarsigur í röð þegar okkar menn lögðu Hauka 89-75. Með sigrinum er liðið okkar komið í 4. sætið með 10 stig. Maciek Baginski fór fyrir liðinu í kvöld með 25 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar.

Eftir sjö mínútna leik var staðan 12-6 og þá tók Israel Martin leikhlé fyrir gestina úr Hafnarfirði. Maciek Baginski fann fjölina í upphafi leiks og skellti snemma niður tveimur þristum. Reyndar voru okkar menn mun duglegri fyrir utan þriggja en inni í teig, 6-11 í þristum en 1-10 í teignum í fyrsta leikhluta en staðan þó 20-13 eftir fyrstu tíu mínúturnar og flott ákefð í Njarðvíkurliðinu.

Haukar minnkuðu muninn í 27-25 í öðrum leikhluta en Njarðvík sleit sig frá á nýjan leik 34-25 þar sem Maciek Baginski var helsti sóknarbroddurinn. Annar leikhluti reyndist öllu jafnari en sá fyrri, staðan í hálfleik 39-34 og Maciek Baginski með 11 stig í Njarðvíkurliðinu og Kyle Williams kom inn í annan leikhluta eftir meiðslafjarveru í síðustu leikjum. Kyle skellti í tvo þrista og var með 8 stig í hálfleik.

Um miðbik þriðja leikhluta var staðan 46-43. Kári Jónsson var að hitta vel í liði gestanna og hélt Haukum við efnið á meðan Cahz var að finna taktinn á sóknarendanum fyrir Njarðvíkurliðið. Njarðvík náði mest upp 10 stiga forskoti í þriðja leikhluta en Haukar með flautuþrist í lok þriðja minnkuðu muninn í 61-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Framan af fjórða leikhluta neituðu Haukar að láta stinga sig af, Kristinn Pálsson kom með risa  þrist þegar fjórar mínútur lifðu leiks og kom Njarðvík í 70-63. Chaz Williams fór svo langt með leikinn þegar hann „hristi og hrærði” af sér varnarmann Hauka og kom Njarðvík í 79-68. Lokatölur reyndust 89-75, verðskuldaður sigur í barningsleik.

Maciek Baginski var stigahæstur í kvöld með 25 stig, flottur leikur hjá Maciek og næstir honum voru Kyle og Chaz báðir með 11 stig og þeir Wayne, Mario og Kristinn bættu allir 10 stigum í púkkið.

Næst á dagskrá er bikartvíhöfði í Njarðtaks-gryfjunni en þá mæta bæði Keflavíkurliðin í heimsókn. Leikirnir fara fram í Njarðtaks-gryfjunni þann 8. desember næstkomandi og óhætt að fullyrða að viðlíka skemmtun í Reykjanesbæ fæst ekki á betra verði.

Tölfræði leiksins: Njarðvík 89-75 Haukar
Myndasafn 1
Myndasafn 2

Chaz að „hrista og hræra“