Óhætt að reikna með hörku seríuPrenta

Körfubolti

Úrslitakeppnin í Domino´s-deild karla hefst núna á fimmtudag þegar ÍR mætir í Ljónagryfjuna kl. 19:15. Heimasíðan ræddi við Einar Árna þjálfara í adraganda stórvertíðarinnar. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér miða í undanúrslit.

Háannatíð okkar körfuboltafólks að hefjast. Hvernig er staðan á Njarðvíkurliðinu um þessar mundir?
Staðan á Njarðvíkurliðinu er að mestu leyti fín. Kristinn Pálsson meiddist reyndar gegn Skallagrím á fimmtudag og fór í segulómun á föstudag. Við erum enn að bíða niðurstöðu og hann er því spurningamerki sem stendur. Aðrir eru heilir heilsu og vikan fer svo í að undirbúa okkur vel fyrir fimmtudaginn.

Mætum ÍR í 8-liða úrslitum, við hverju má fólk búast í þessari seríu?
Held að það sé óhætt að reikna með hörku seríu. Við unnum góðan sigur í Seljaskóla í desember en ÍR-ingar lögðu okkur svo í framlengdum leik á dögunum í Gryfjunni. ÍR liðið gerði góða hluti síðasta vetur og hafa á öflugu liði að skipa en við höfum fulla trú á okkur farandi inn í þetta verkefni og ætlum okkur sigur. Vitum sem er að til þess að svo verði þurfum við að henda í öflugar frammistöður.

Hve miklu máli skiptir stuðningurinn ykkur þjálfara og leikmenn?
Ég held að það sé óhætt að segja að stuðningurinn geti skipt sköpum. Við erum að mæta liði sem á öflugan stuðningshóp en mæting Njarðvíkinga á leiki liðsins í vetur hefur svo sannarlega verið til fyrirmyndar og stuðningurinn sömuleiðis. Það var verðskuldað að stuðningsmenn okkar skyldu vera valdir bestu stuðningsmenn síðari hluta Dominosdeildar enda höfum við oft haft orð á því hve öflugt fólkið er á bak við okkur í útileikjunum – þar höfum við oft upplifað okkur eins og heima. Í Gryfjunni hefur þetta verið magnað og við unnið 11 af 13 leikjum vetrarins og þar hafa stuðningsmenn okkar oft spilað stórt hlutverk. Bikarundanúrslit og úrslit í Höllinni sýndu svo og sönnuðu hversu öflugir Njarðvíkingar eru þegar kemur að því að styðja liðið okkar. Ég trúi því og treysti að Njarðvíkingar haldi áfram að fjölmenna á leiki liðsins í úrslitakeppninni. Hver einasti leikur í keppninni er gríðarlega mikilvægur og þó ég viti að Ljónagryfjan taki ekki við öllum þeim fjölda Njarðvíkinga sem mætti í Höllina í febrúar að þá vonast ég eftir fullu húsi á fimmtudag, og reyndar miklu fjölmenni Njarðvíkinga, í grænu þegar við mætum í leik tvö í Seljaskóla á sunnudag. Fyrir fánann og UMFN!

Mynd/ Jón Björn – Einar Árni ræðir við sína menn í leikhléi.