Ólafur Helgi Jónsson fyrrum leikmaður karlaliðs Njarðvíkur verður aðstoðarþjálfari hjá Einari Árna Jóhannssyni með Njarðvíkurliðið í Bónus-deild kvenna á komandi leiktíð.
Ólafur Helgi er því mættur aftur til starfa í félaginu eftir að hafa lagt skóna á hilluna sem leikmaður. Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá er Ólafur Helgi borinn og barnfæddur Njarðvíkingur sem hefur áður þjálfað í yngri flokkum félagsins.
„Ég hef unnið lengi með Óla Helga og veit nákvæmlega hvað ég og félagið erum að fá í honum. Sem leikmaður var hann alltaf fyrirferðamikill á velli og gjarnan límið í sínum hópum. Ég er sannfærður um að hann hafi helling fram að færa fyrir yngri leikmenn okkar en margir ungir og efnilegir leikmenn eru að stíga upp í meistaraflokkinn og munu njóta góðs af reynslu Óla,” sagði Einar Árni þjálfari meistaraflokks kvenna.