Öruggur sigur gegn Grindavík bPrenta

Körfubolti

Njarðvík tók á móti Grindavík b í 1. deild kvenna í kvöld í Njarðtaksgryfjunni. Heimakonur voru við stýrið frá upphafi til enda þar sem lokatölur reyndust 90-61.

Elfa Falsdóttir lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld eftir að hafa skipt yfir frá toppliði Fjölnis en í liði andstæðinganna hitti hún fyrir systur sína Lovísu. Þá var Erna Freydís Traustadóttir mætt í búning á nýjan leik eftir meiðsli en Njarðvíkingar sakna enn Evu Maríu Lúðvíksdóttur sem enn er frá vegna meiðsla.

Njarðvíkingar leiddu 19-10 að loknum fyrsta leikhluta gegn fámennum Grindvíkingum sem mættu með átta leikmenn til leiks. Strax í fyrsta leikhluta höfðu tíu Njarðvíkingar komið við sögu og ljóst að Njarðvík ætlaði sér að nýta liðsmuninn.

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 48-28 og nokkuð ljóst í hvað stefndi. Jóhanna Lilja Pálsdóttir var stigahæst í Njarðvíkurliðinu í hálfleik með 9 stig og 3 fráköst (3-4 í þristum) en hjá Grindavík b var fyrrum landsliðskonan Petrúnella Skúladóttir atkvæðamest með 12 stig og 4 fráköst.

Í síðari hálfleik jókst munurinn og lokatölur reyndust 90-61 eins og áður greinir.

Að þessu sinni reyndust Grindvíkingar auðveld bráð og eru sem fyrr í næstneðsta sæti deildarinnar með 8 stig en sigurinn færði Njarðvík 22 stig sem komst fyrir vikið í 3.-4. Sæti deildarinnar ásamt ÍR sem á þó leik til góða.

Helena Rafnsdóttir og Jóhanna Lilja Pálsdóttir voru stigahæstar í liði Njarðvíkur báðar með 15 stig og Vilborg Jónsdóttir klukkaði tvennu með 12 stig og 10 stoðsendingar. Hjá Grindavík b var Petrúnella Skúladóttir með 15 stig og 8 fráköst.

Myndasafn

Tölfræði leiksins