Páll Axel og Unndór þjálfa 10-14 ára drengi í NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Félagarnir Páll Axel Vilbergsson og Unndór Sigurðsson verða á meðal þjálfara yngri flokka Njarðvíkur á komandi tímabili. Báðir eru þeir margreyndir leikmenn og þjálfarar og bindur barna- og unglingaráð Njarðvíkur miklar vonir við samstarfið við þessa öndvegis menn.

Páll Axel mun taka að sér þjálfun minibolta 10-11 ára drengja en Unndór verður með 7. og 8. flokk drengja. „Við erum mjög ánægð í Njarðvík að fá þessa öflugu þjálfara til liðs við okkur. Þeir hafa helling fram að færa til ungra iðkenda en við höfum síðustu árin séð til þeirra beggja í þjálfun og litist vel á það sem þeir hafa fram að færa,” sagði Logi Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka Njarðvíkur.

Nú styttist í að æfingar fari að hefjast í yngri flokkum. Nánari upplýsingar um æfingarnar koma á næstu dögum en ráðgert er að 9. flokkur og eldri hefji æfingar um 21. ágúst og svo 8. flokkur og yngri hefji æfingar 2. september.

Mynd/ Jón Björn Ólafsson formaður barna- og unglingaráðs Njarðvíkur ásamt þeim Páli Axeli og Unndóri.