Patrik valinn í Basketball Without Borders í EnglandiPrenta

Körfubolti

Patrik Birmingham hélt í morgun af stað til Englands þar sem hann mun taka þátt í Basketball Without Borders búðunum á vegum NBA deildarinnar og FIBA sem fram fara í Manchester. BWB samanstendur af sex árlegum þróunarbúðum sem haldnar eru í Afríku, Ameríku, Asíu, Evrópu og tvisvar á ári í Bandaríkjunum.

Auk æfinga og keppni taka þátttakendur einnig þátt í námskeiðum sem snúa að forystuhæfni og lífsleikni. Frá því BWB hófst hafa verið haldnar 77 búðir í 51 borg í 33 löndum í sex heimsálfum, og hafa yfir 4.572 ungir leikmenn frá 142 mismunandi löndum tekið þátt.

Dagskrá búðanna hefst á morgun 12. ágúst og stendur hún alveg til 15. ágúst. Það gerist ekki oft að íslenskum leikmönnum sé boðið við búðirnar og án þess að hafa 100% vissu fyrir því teljum við á UMFN.Is líklegast að Hákon Örn Hjálmarsson leikmaður ÍR hafi síðastur fengið þetta boð í BWB.

Þess má til gamans geta að Patrik er ekki fyrsti Njarðvíkurinn sem hlýtur þetta boð en fyrir 15 árum síðan fékk Oddur Birnir Pétursson boð um að taka þátt í BWB búðunum en nánar má lesa um það hér. Þá var Hjörtur Hrafn Einarsson einnig valinn í búðirnar árið 2006. Með Hirti í þeim búðum teljum við að David Guardia Ramos leikmaður Hattar hafi einnig verið viðstaddur en birtum þá staðreynd án ábyrgðar að svo stöddu.

Stjórn KKD UMFN og unglingaráð óska Patrik til hamingju með valið í búðirnar og óskum honum góðs gengis.