Reglur UMFN
Hraðval
- Siðareglur UMFN
- Fjáraflanareglur UMFN
- Reglur um samskipti deilda UMFN á netinu og samfélagsmiðlum
- Styrktarreglur UMFN
- Sömu íþróttagreinar
- Val á íþróttafólki UMFN
Siðareglur UMFN
Samskipti
- Ávallt skal stuðla að velferð barna og ungmenna og hafa að leiðarljósi það sem þeim er fyrir bestu.
- Starfsfólk og sjálboðaliðar skulu gæta vandvirkni og samviskusemi auk þess að koma fram af umhyggju, heiðarleika og virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með eða fyrir. Hafa skal í huga að orð og athafnir samrýmist starfi, umhverfi, stað og stund.
- Starfsfólk og sjálboðaliðar eru fyrirmyndir þátttakenda í starfi og ber að sýna góða hegðun og gott fordæmi jafnt í starfi sem og utan þess.
- Stuðla skal að heilbrigðu, uppbyggjandi og vönduðu starfi með börnum og ungmennum.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu ekki mismuna börnum og ungmennum með orðum eða hegðun á grundvelli þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kyns, aldurs, trúarbragða, skoðana, kynhneigðar, fötlunar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskylda á þó aldrei við þegar starfsfólk eða sjálfboðaliðar verða þess áskynja að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða hvers konar ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Í slíkum tilfellum ber að fylgja ákvæðum IV. kafla barnarverndarlaga nr. 80/2002.
- Öll neysla tókaks, rafrettna, áfengis eða annarra vímuefna er óheimil í starfi með börnum og ungmennum.
- Starfsfólk eða sjálfboðaliðar, sem ráðnir eru til að starfa með börnum og ungmennum, skulu hæfir til þess. Ávallt skal leita eftir samþykki þeirra sem hyggjast hefja störf um leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá.
- Starfsfólk eða sjálfboðaliðar skulu ekki misnota stöðu sína á neinn hátt, svo sem líkamlega, andlega eða kynferðislega þegar kemur að samskiptum við þátttakendur eða annað starfsfólk og sjálfboðaliða.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sinna þátttakendum af alúð í starfi en halda sig í faglegri fjarlægð utan viðburða og forðast náið samband. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei hafa frumkvæði
að samskiptum við þátttakendur nema slíkt sé í tengslum við þátttöku barns og ungmennis. - Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei stofna til óviðeigandi sambands við börn og ungmenni sem eru þátttakendur í starfi.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu forðast þá aðstöðu að vera ein með þátttakanda.
- Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi þátttakenda í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að börn lendi í aðstæðum sem þau ekki ráða við. Þetta á bæði við um börn og sjálfboðaliða sem ekki hafa náð 18 ára aldri.
- Einelti er ekki liðið. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu leitast við að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi, svo sem andlegt líkamlegt eða kynferðislegt.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu leitast við að eiga góð samskipti við samstarfsfólk og foreldra þátttakenda.
- Hafa skal í huga að mörk einstaklinga eru mismunandi og ber að virða þau. Varast skal hvers konar snertingar sem gætu leitt til misskilnings í samskiptum við börn, ungmenni og samstarfsfólks.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu huga að ábyrgum rafrænum samskiptum og netnotkun við þátttakendur. Forðast skal að eiga samskipti í gegnum síma og samskiptasíður á internetinu nema
í tengslum við þátttöku barna í viðburðum. - Þegar teknar eru ljósmyndir af börnum og ungmennum sem þátttakendum í starfi skal virða friðhelgi þeirra og rétt til einkalífs. Aldrei skal taka eða birta óviðeigandi myndir af börnum og ungmennum. Myndir af þátttakendum í starfi, sem teknar eru af starfsfólki og sjálboðaliðum, skal aldrei nota til einkanota
Mikilvægt er fyrir alla sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða.
Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.
Byggt á siðarelgum Æskulýðsvettvangsins.
Samþykkt af aðalstjórn UMFN 2019.
Reglur um fjáraflanir
Reglur um fjáraflanir/safnanir í nafni Ungmennafélags Njarðvíkur.
- Fjáraflanir einstakra hópa skulu vera á vegum viðkomandi foreldraráðs, eða iðkenda sjálfra, ef þeir eru 18 ára eða eldri. Áður en ráðist er í fjáröflun skal viðkomandi hópur eða foreldraráð ákveða hvaða einstaklingar eru ábyrgðarmenn fjáröflunarinnar og skulu þeir koma fram fyrir hönd hópsins.
- Samþykki aðalstjórnar skal liggja fyrir áður en ráðist er í fjáröflun.
- Einstaklingar og hópar skulu við fjáraflanir ávallt vera merktir félaginu og gefa upplýsingar fyrir hvern og til hvaða verkefnis fjársins er aflað.
- Áður en farið er í fjáröflun skal liggja fyrir hvernig henni verði varið, hvort um er að ræða sameiginlegan sjóð og/eða merkt viðkomandi einstaklingi.
- Fjáraflanir á vegum flokka, deilda eða einstakra hópa innan Ungmennafélags Njarðvíkur skal miðast við að standa straum af beinum kostnaði vegna viðkomandi viðburðar s.s. beinum ferða- og dvalarkostnaði ásamt kostnaði við þátttöku í viðburðum sem skipulagðir eru sem hluti af viðkomandi ferð. Ekki er gert ráð fyrir að þátttakendur geti með fjáröflun í nafni félagsins aflað sér fjármuna umfram beinan kostnað.
- Einstaklingur sem safnað hefur fé sem sérstaklega er merkt honum hættir við þátttöku í ferð/viðburði af óviðráðanlegum sökum á ekki rétt á að fá endurgreitt það sem safnað er fyrir. Í slíkum tilvikum rennur féð sem merkt var viðkomandi einstaklingi í sameiginlegan sjóð. Ef fé hefur verið lagt inn í verkefnið án söfnunar vegna einstaklingsins á viðkomandi rétt á endur-greiðslu.
- Stjórn UMFN úrskurðar um öll ágreiningsmál sem upp koma í tengslum við safnanir á vegum félagsins og getur sett nánari reglur um þær og veitt undanþágur ef slíkt telst nauðsynlegt.
Styrktarreglur UMFN
Samþykkt á fundi Aðalstjórnar Ungmennafélags Njarðvíkur þann 22. september 2009
UMFN úthlutar styrkjum til afreksmanna sinna, samkvæmt umsóknum sem berast frá formönnum deilda og eru styrkhæf verkefni þátttaka í Norðurlandamótum, Evrópumótum og Heimsmeistaramótum með landsliðum Íslands ef kostnaður vegna fararinnar er ekki greiddur að fullu af viðkomandi sérsambandi. Styrkur vegna tímabilsins 2009-2010 hefur verið ákveðinn 20.000,- krónur.
Aðalstjórn UMFN fjallar sérstaklega um styrki vegna Ólympíuleika.
Deildir UMFN eru fjárhagslega sjálfstæðar samkvæmt lögum félagsins og hafa tekjur af félagsgjöldum iðkenda sinna og ágóða af íþróttamótum og öðrum fjáröflunum. Deildir félagsins bera ábyrgð á útgjöldum sínum , uppsafnaður rekstrarvandi er EKKI styrkhæfur.
Dæmi um útgjaldaliði: Kostnaður við þjálfun (laun og fræðsla), keppnisbúningar, dómgæsla, ferðakostnaður og hver sá búnaður sem þarf til æfinga og keppni.
Á fundi aðalstjórnar 13.6.2022 var samþykkt að hækka styrkinn í 30.000. krónur.
Reglugerð um íþróttagreinar innan sömu deildar UMFN
- Heimilt er að stunda fleiri en eina íþróttagrein innan sömu deildar UMFN, svo fremi sem þær fari saman, t.d. hvað aðstöðu varðar og annað tilheyrandi.
- Samþykki stjórnar viðkomandi deildar þarf að liggja fyrir.
- Alltaf skal leggja fyrir aðalstjórn ef stofna á nýja íþróttagrein innan deildar sem fyrir er.
- Ef aðalstjórn samþykkir beiðni um stofnun nýrrar íþróttagreinar á fundi sínum, getur stjórn viðkomandi deildar sótt um aðild að tilheyrandi sérsambandi innan ÍSÍ.
Reglugerð um tilnefningu og val á íþróttafólki UMFN
- Tilnefning til íþróttafólks UMFN skal miðast við hverja íþróttagrein innan deildar, sem er lögleg keppnisgrein innan ÍSÍ.
- Stjórn viðkomandi deildar tilnefnir eina konu og einn karl í hverri íþróttagrein, sem til afreka hefur unnið á efsta stigi þeirrar greinar sem keppt er í, þ.e. í fullorðins- eða meistaraflokki, og sýnt hefur háttsemi bæði í keppni og störfum fyrir félagið.
- Stjórnir deilda skulu senda framkvæmdastjóra félagsins bréflega þá sem eru tilnefndir, á stöðluðu formi til að auðvelda samanburð afreka hvers einstaklings.
- Aðalstjórn velur úr öllum tilnefningum, hver fyrir sig og sendir framkvæmdastjóra niðurstöður sínar. Þau sem meirihluta hafa fengið, eru valin Íþróttafólk UMFN