Risaleikur um deildarmeistaratitilinn í Ljónagryfjunni í kvöld!Prenta

Körfubolti

Já það er útkall! Glampandi sól og risaleikur í Ljónagryfjunni þegar Valur mætir Njarðvík í næstsíðustu umferð Subwaydeildar karla. Þetta verður ekkert annað en körfuboltaveisla og því ræsum við grillin á slaginu 19:15 þar sem Teitur og Frikki Stef galdra fram líklega bestu hamborgara úrvalsdeildarinnar. Leikurinn hefst kl. 20:15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Nú er lag að skella sér í græna Njarðvíkurbolinn og mæta í Ljónagryfjuna. Það kennir ýmissa grasa í leik kvöldsins en hann er úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn.

Það má skoða leikinn frá ýmsum hliðum:
– Njarðvík og Valur eru jöfn á toppi deildarinnar með 32 stig. Valur hefur í dag betur innbyrðis eftir 13 stiga sigur í fyrri leiknum á tímabilinu.
-Njarðvík þarf því að vinna leikinn í kvöld með 14 stiga mun til að ná betri innbyrðisstöðu gegn Val og verða þannig deildarmeistarar óháð því hvernig leikar fara í lokaumferðinni.
-Valsmönnum að sama skapi dugir sigur í kvöld og þá verða þeir deildarmeistarar.
-Ef Njarðvík vinnur með minna en 13 stiga mun þá ræðst deildarmeistaratignin ekki fyrr en í lokaumferð deildarinnar.

Þannig að við höfum bolta, borgara og hið fínasta stærðfræðidæmi í deildarkeppninni svo þetta er ekki flókið – sjáumst í Ljónagryfjunni í kvöld, besti skemmtistaður bæjarins.

Staðan í Subwaydeild karla (24. mars)