Sunnudagurinn 8. desember næstkomandi verður risavaxinn bikardagur í Reykjanesbæ þegar Njarðvík tekur á móti Keflavík í karla- og kvennaflokki í 16-liða úrslitum Geysisbikarskeppninnar. Rjóminn í körfuknattleik Reykjanesbæjar mætist allur í einni skál og hefjast leikar kl. 16.30 með kvennaviðureign Njarðvíkur og Keflavíkur og karlaleikurinn hefst svo kl. 19.30. Frá kl. 17.30 á sunnudag verða grillaðir hamborgarar á boðstólunum fyrir vallargesti.
Athugið að tæmt verður úr áhorfendastúku á milli leikjanna.
Eins og flestu körfuknattleiksáhugafólki er kunnugt leikur kvennalið Njarðvíkur í 1. deild kvenna en Keflavíkurkonur í Domino´s-deildinni svo það er ljóst að Ljónynjur munu sækja á brattann á sunnudag og fá nú loks að máta sig við úrvalsdeildarlið. Karlamegin er von á magnaðri glímu enda hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Njarðvík og Keflavík mættust í upphafi leiktíðar í Domino´s-deild karla.
Ekki láta þig vanta á bestu jólaskemmtun Reykjanesbæjar þetta árið!