Rúnar: Snýst allt um hugarfarPrenta

Körfubolti

Miðvikudaginn 12. janúar verður nágrannaglíma af bestu sort þegar Njarðvík arkar yfir til Keflavíkur í enn eina huggulega grannaglímu. Ljónynjurnar eiga í hörku baráttu við topp deildarinnar en Keflavík er að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni og því til mikils að vinna fyrir bæði lið. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Blue-Höllinni við Sunnubraut.

Um það bil mánuður er liðinn síðan Njarðvíkurliðið dressaði sig upp í búning svo heimasíðan ákvað að taka hús á Rúnari Inga þjálfara sem lagði áherslu á hugarfarið.

Nú er mánuður síðan liðið lék síðast í Subway-deildinni. Hvernig er staðan á hópnum? Liðið hefur fengið sinn skerf af veirunni undanfarið – allir búnir að ná sér?
Þetta hefur verið ansi löng pása, síðasti deildarleikur 8.des og svo 8 liða í bikar sem var síðasti leikur fyrir jól 11.des sl. Þegar þú ert á góðu skriði og liðið að spila betur með hverjum deginum þá er kannski ekki það besta að lenda í svona löngu hléi en þetta er svona hjá flestum liðum. Við erum búnar að eiga góða æfingaviku núna og allar sem fengu veiruna skæðu eru komnar tilbaka en það er ennþá smá sóttkvíarvesen og það er bara eitthvað sem við þurfum að venjast að lifa með. Núna þurfum við bara að núllstilla okkur og horfa á þetta hlé sem eitthvað sem var gott að fá, þetta snýst allt um hugarfar.

Stórleikur á miðvikudgskvöld gegn Keflavík, hvernig leggst það verkefni í þig og hópinn?
Ég er rosalega spenntur fyrir því verkefni, alvöru El Clasico leikur til þess að koma okkur af stað eftir pásuna. Við áttum flottan leik gegn þeim í Ljónagryfjunni í byrjun nóvember og þær hafa verið að ströggla aðeins fyrir jólafrí en það skiptir engu máli þegar þessi leikur byrjar – ég veit að Keflavíkurliðið mætir alveg brjálað til leiks á morgun. Fyrst og fremst þurfum við að hugsa um okkur sjálfar, halda áfram að verða betri í að finna okkar styrkleika og hafa þetta gullna jafnvægi á milli þess að spila hratt en á sama tíma geta verið skipulagðar og takmarka slæmar ákvarðanir. Ég veit að mínar stelpur mæta tilbúnar í Blue Höllina og vonandi fáum við stuðning úr stúkunni þrátt fyrir ástandið!

Miðvikudagur 12. janúar
Keflavík-Njarðvík
18:15 – Subwaydeild-kvenna