Annáll 2011
Júdódeild Njarðvíkur JDN hóf starfsemi sína um miðjan janúar 2011. Deildin fékk inni á kaffistofu Reykjaneshallarinnar. Strax í upphafi var mikil aðsókn og greinilega eftirspurn eftir júdóíþróttinni í bæjarfélaginu. Fyrsta mótið sem JDN tók þátt í var byrjendamót ÍR. Frá okkur fóru fjórir keppendur, Sæþór Berg Sturlusson, Ólafur Magnús Oddson og Jón Marínó Magnússon. Sæþór og Ólafur kepptu í flokki 15-18 ára í +85kg flokki þar sem Sæþór vann til silfurverðlauna og Ólafur til bronsverðlauna. Jón Marínó keppti í flokki 12-14ára. Næsta mót var Íslandsmót unglinga (U20). Sæþór Berg Sturluson keppti í þungavigt 15-16 ára og Ólafur Magnús Oddsson í einnig í þungavigt 17-20 ára. Ólafur uppskar brons og Sæþór nældi sér í verðskuldað silfur þar sem hann hengdi andstæðing sinn í viðureigninni um annað sætið.
Júdódeildin keppir ekki einungis í Júdó heldur æfa þeir allar fangbragða tegundir sem kenndar eru á klakanum. Sextán unglingar á aldrinum 12-17 ára tóku þátt á Unglingamóti Mjölnis í brazilian jiu jitsu á vormánuðum. Keppt var í 4 flokkum. Krakkarnir í júdódeilinni stóðu sig allir frábærlega.
Bjarni Darri vann yngsta flokkinn sem var skipaður krökkum á aldrinum 11-13ára. Í flokki 65kg, 14-15ára var Guðmundur Jón í öðru sæti og Karel Bergmann í því þriðja. Í sama aldursflokki +65kg var Björn Lúkas í fyrsta sæti. Í elsta hópnum vann Guðmundur Hammer til bronsverðlauna.
Í apríl fóru 12 keppendur á Vormót JSÍ sem er eitt af fjórum stóru mótum á landinu. Allir keppendur stóðu sig frábærlega og voru einstaklega sókndjarfir. Deildin kom heim í Njarðvíkurnar með 6 brons og eitt gull. Hilmar Þór var í þriðja sæti í -34kg flokk barna, Michael Martin Davíðsson varð þriðji í -55kg flokki unglinga, í -66kg flokki unglinga var JDN með tvo keppendur, Karel Bergmann Gunnarsson sem varð þriðji og Ævar Þór Ómarsson sem vann allar sínar glímur á ippon eða fullnaðarsigri og hlaut því fyrsta sæti í flokknum sem er frábær árangur þó ekki sé minna sagt. Í +90kg flokki hlaut Eyþór Salomon Rúnarsson brons og í þungavigtinni krækti Birkir Freyr Guðbjartsson sér í brons. Í stúlknaflokki varð Sóley Þrastardóttir í þriðja sæti í +52kg flokki.
Þessi árangur er frábær ef við miðum við að UMFN mætti með 12 keppendur með lægstu gráðu, sem komu heim með fjölda verðlauna.
Í september fóru þrír keppendur á fjölmennasta brazilian jiu jitsu mót sem haldið er á Íslandi. Þar sigraði gamla brýnið Guðmundur Stefán Gunnarsson þungavigtina, Helgi Rafn Guðmundsson og Björn Lúkas Haraldsson hirtu fyrsta og annað sætið í -77kg flokki karla. Júdódeild Njarðvíkur gerði það gott á Haustmóti JSÍ. Njarðvíkingarnir glímdu allir virkilega vel og uppskeran var stórkostleg. Ellefu keppendur frá JDN, þar af tveir sem voru að mæta á sitt fyrsta mót. Tveir unnu til bronsverðlauna, þeir Magni Arngrímsson og Kristján Snær Gunnarsson. Til silfurverðlauna unnu þeir Bjarni Darri Sigfússon, Ævar Þór Ómarsson, Hilmar Þór Magnússon og Sæþór Berg Sturluson. Til gullverðlauna unnu þeir Birkir Freyr Guðbjartsson og Alexander Hauksson. Júdódeildin var í þriðja sæti af átta í stigakeppni liða.
Í október fóru Helgi Rafn og Björn Lúkas í víking og gerðu strandhögg í Svíþjóð. Þeir kepptu á Norðurlandamótinu í brazilian jiu jitsu og komu heim með góðan feng. Helgi sigraði sína fyrstu viðureign en tapaði þeirri næstu. Björn Lúkas kom heim með brons eftir að hafa lagt og yfirbugað nógu marga til að berjast um þriðja sætið.
Í lok október var brotið blað í sögu UMFN þá fór JDN með tvo keppendur á Meistaramót Íslands í glímu. Njarðvíkingar hafa aldrei verið með keppanda í glímu. Bjarni Darri Sigfússon og Birkir Freyr Guðbjartsson fóru til Hvolsvallar til að etja kappi við sterkustu glímumenn landsins í öllum aldursflokkum. Birkir tapaði sínum viðureignum enda átti hann ekki við neina au kvisa að etja. Hann stóð þó vel í þeim sem hann keppti við. Bjarni Darri keppti í flokki 12ára (ekki neinir þyngdarflokkar). Keppendur í þeim flokki voru sex talsins. Bjarni lagði 3 keppinauta sína og tapaði fyrir einum, en sá vann flokkinn og Bjarni náði þeim góða árangir að landa silfri. Þarna hafði JDN unnið til verðlauna í öllum helstu fangbrögðum sem iðkuð eru á Íslandi. Sömu helgi var Íslandsmeistaramót fullorðinna í BJJ (brazilian jiu jitsu). Þangað fóru fjórir keppendur frá júdódeildinni. Lokaniðurstaða þess móts var brons sem Helgi Rafn Guðmundsson vann til.
Fyrsti aðalfundur eða réttara sagt aukaaðalfundur JDN var haldin 8.nóvember í Íþróttahúsi Njarðvíkur. Fjörutíu foreldrar mættu til að taka þátt í starfinu. Allar nefnir og ráð voru mönnuð og félagsstarfið komið á fullt.