Árið 2018 hjá júdódeild UMFN var afar farsælt og skemmtilegt. Í mars fór fram Vormót JSÍ eldri á Akureyri og þau Heiðrún Fjóla Pálsdóttir, Kári Ragúels Víðisson, Richard Jansons og Ægir Már Baldvinsson kepptu þar. Heiðrún Fjóla sigraði sinn flokk örugglega Ægir Már átti líka gott mót þrátt fyrir að vera meiddur í baki og sigraði hann sinn flokk einnig. Richard meiddist í annarri viðureign en hélt áfram og glímdi sig inn í úrslitin. Þar glímdi hann við Egil Blöndal, einn sterkasta júdómann landsins. Richard var yfir stærstan hluta viðureignarinnar en á loka mínútunni var honum kastað og þurfti hann að láta sér annað sætið duga í þetta sinn. Kári Ragúels, yngsti keppandi Njarðvíkinga sigraði hvern andstæðinginn á fætur öðrum með hinum mismunandi köstum. Hann komst í undanúrslit og tapaði hann þeirri viðureign og hafnaði í þriðja sæti. Þessi frammistaða dugði Njarðvíkingum til sigurs í þessu móti og er þetta í fyrsta sinn sem Júdódeild UMFN sigrar fullorðinsmót í júdó. 

Sendir voru út fjölda greiðsluseðla í heimabanka einstaka bæjarbúa til styrktar júdódeildinni sem komu því miður út í mínus.

Í maí fóru um 14 unglingar á Budo Nord mótið í Lund Svíþjóð. Þar stóðu allir sig mjög vel á mótinu Jóhannes Pálsson og Ægir Már Baldvinsson komust á pall. Eftir mótið voru skemmtilegar júdóbúðir með nokkrum að bestu þjálfurum á Norðurlöndum.

Á Íslandsmóti unglinga í apríl var okkar fólk sigursælt þar sem við sigruðum alla flokka nema tvo. Þetta er ótrúlegur árangur okkar fimmtán manna hóps sem vann næst flest verðlaunin liða á mótinu. Íslandsmeistarar Njarðvíkur á mótinu voru sjö að þessu sinni en það voru Bjarni Darri Sigfússon, Daníel Dagur Árnason, Ingólfur Rögnvaldsson, Jóhannes Pálsson, Stefán Elías Davíðsson, Viljar Goði Sigurðsson og Ægir Már Baldvinsson. Njarðvíkingar sýndu svo sannalega að þeir eru komnir með sterkustu keppnisfólk unglinga með því að sigra í liðakeppni 15-20 ára.

 

Í ágúst fóru svo fram tvö mót í backhold þar sem þeir Gunnar Gústav Logason og Guðmundur Stefán Gunnarsson kepptu. Á Cowal Games í Skotlandi unnu Gunnar og Guðmundur opinn flokk karla. Guðmundur krækti sér í fyrsta sætið eftir margar góðar viðureignir og þeir félagar mættust í úrslitum þar sem Guðmundur hafði betur að lokum. Daginn eftir fór fram stærsta glímukeppni á Bretlandseyjum á Grasmere í Englandi. Þar varð Guðmundur annar eftir hörku viðureign við meistara síðasta árs.

Í september varð Hrafnkell Þór Þórisson fyrsti menntaði dómari deildarinnar í bardagaíþróttum þegar hann lauk dómaranámskeiði BJI, Hrafnkell Þór er 26 ára gamall.

Ætluðum við að vera með sölubás á ljósanótt en á fimmtudagskvöldið fauk allt út í veður og vind.

Nú á haustmánuðum hefur okkar keppnisfólk verið að taka þátt í mótum ásamt æfingum. Júdódeildin er með sex hópa allt frá 6 ára og yngri og upp í 13 ára. Þá er einnig unglingahópur og fyrir fullorðna. Það er nóg fyrir alla að gera og deildin getur tekið endalaust við enda allir velkomnir. 

 

Júdósamband Íslands og Júdódeild Njarðvíkur leystu farsællega úr ágreiningi í tengslum við gráðun iðkenda JDN. Vafa um framkvæmd hefur verið eytt og ætluðu allir aðilar að taka upp nánara samstarf um gráðun í framtíðinni. Framundan eru breytingar á framkvæmd gáðanna og gráðureglum. Er það von Júdódeildar Njarðvíkur að samstarf félagsins við JSÍ verði gott í framtíðinni.

 

Í nóvember fóru nokkrir af barna og unglingahópnum okkar á Södra Open í Stokkhólmi. Börnin kepptu vel og allir þátttakendur fengu verðlaunapeninga fyrir að vera með. Unglingarnir kepptu eftir á Jóhannes Pálsson lenti í fyrsta sæti í sínum flokki. Heiðrún Fjóla Pálsdóttir varð þriðja í sínum flokki og Ingólfur Rögnvaldsson í sínum flokki. Gunnar Örn Guðmundsson varð einnig þriðji í sínum flokki. Guðmundur og Mike kepptu í fullorðinsflokknum Guðmundur varð annar í sínum flokki.

 

Í desember var haldið jólamót Sleipnis. Var góð mæting og skemmtilegt mót í alla staði. Valið á glímu-og júdókona/maður ársins 2018 Heiðrún Fjóla og Ægir urðu fyrir valinu og  Kári Ragúels Víðisson var valin efnilegasti júdómaður 2018. Í lok árs fengu Ægir Már og Bjarni Darri svarta beltið.