Samstarf Knattspyrnudeildar UMFN og HafnaPrenta

Fótbolti

Knattspyrnudeild Njarðvíkur og Knattspyrnufélagið Hafnir hafa gert með sér samstarfssamning þar sem 2. flokkur Njarðvíkur mun meðal annars bera heitið Njarðvík/Hafnir. Markmiðið er að efla knattspyrnuna í Reykjanesbæ, styrkja innviði m.fl. Hafna og gefa ungum og efnilegum leikmönnum í Njarðvík tækifæri að spila í meistaraflokki á mótum á vegum KSÍ.

Knattspyrnufélagið Hafnir er hugsað sem félag fyrir alla unga stráka á Suðurnesjunum þar sem leikmenn geta fengið tækifæri á að spila meistaraflokksbolta í stemningsríku umhverfi og fá á sama tíma tækifæri á að sýna sig á knattspyrnuvellinum. Njarðvík styður mjög vel við stefnu Hafnarmanna og vilja hjálpa þeim að þróa starfið betur og sjá til þess að þeir komist áfram á næsta þrep og stækki sem félag. Með því að 2. flokkur muni spila sem Njarðvík/Hafnir þá munu ungir leikmenn sem hafa farið í gegnum yngri flokka Njarðvíkur eiga möguleika á að fá tækifæri að spila með meistaraflokki Hafna, þróast og þroskast hraðar sem leikmenn og sem eykur möguleikann á að þeir geti fyrr spilað á efri deildum. Einnig mun samstarfið auka líkurnar á að þeir sem eru komnir upp úr 2. flokki Njarðvíkur og eru ekki með spilatíma í meistaraflokki fái tækifæri með Höfnum og haldist þannig í Njarðvíkurumhverfinu og verði áfram virkir í kringum félagið.

Hafnir verða áfram sjálfstætt félag fyrir alla leikmenn á Suðurnesjum þar sem grunngildi og hugmyndir Hafnarmanna verða áfram hafðar að leiðarljósi. En með samstarfinu munu innviðir félagsins styrkjast á ýmsum sviðum og ungir leikmenn frá Njarðvík munu á sama tíma fá aukinn möguleika á spilatíma með félaginu. 

Með þessu samstarfi vilja félögin stuðla saman að frekari uppbyggingu knattspyrnu í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum. Knattspyrnudeild Njarðvíkur væntir mikils af samstarfinu, vonast til að það verði farsælt og öllum til heilla.  

Áfram Njarðvík – Fyrir fánann og UMFN 

Áfram Hafnir – Kærleikur og Léttleiki