Í kvöld leika okkar menn í Njarðvík sinn síðasta útileik í deildarkeppninni þegar liðið mætir ÍR í TM-Hellinum í Breiðholti. Leikurinn hefst kl. 18:15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Eftir viðureign kvöldsins er einn leikur eftir í deildinni í Ljónagryfjunni gegn grönnum okkar í Keflavík.
Fyrri leikur liðanna í Ljónagryfjunni fór 109-81 fyrir Njarðvík í desembermánuði en eitt og annað hefur breyst síðan þá og má búast við miklum slag í Breiðholti í kvöld. Bæði lið hafa til mikils að vinna fyrir þau stig sem eru í boði í kvöld. Njarðvíkingar eiga enn möguleika á deildarmeistaratitli og ÍR á enn möguleika á því að berja sér leið inn í úrslitakeppnina þó vissulega standi Breiðablik og KR þar betur að vígi í augnablikinu. Það má því gera ráð fyrir að liðin selji sig dýrt í kvöld.
Njarðvíkingar fjölmennum í TM-Hellinn í kvöld og styðjum okkar menn í baráttunni, lokasprettur deildarinnar er í fullum gangi og úrslitakepnin handan við hornið!