Sigur gegn Hetti í NjarðtaksgryfjunniPrenta

Körfubolti

Njarðvík lagði Hött 77-65 í æfingaleik í kvöld í Njarðtaksgryfjunni. Hattarmenn mættu ákveðnari til leiks á meðan Njarðvíkingar tóku sér drykklanga stund í að finna taktinn í varnarleik sínum. Höttur leiddi 20-27 eftir fyrsta leikhluta en heimamenn náðu að jafna 40-40 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Mario og Rodney voru með 8 stig hjá Njarðvík í hálfleik en Karlovic 9 hjá Hetti.

Í þriðja leikhluta skriðu heimamenn í bílstjórasætið og leiddu 62-55 eftir þriðja leikhluta og snemma í þeim fjórða var staðan 72-60. Þrátt fyrir lipra tilburði Hattarmanna á köflum komust þeir ekki nærri og lokatölur 77-65.

Rodney Glasgow var með 15 stig hjá Njarðvík og Johannes Dolven með 12. Þá bætti Mario Matasovic við 9 stigum sem og Veigar Páll Alexandersson sem kom flott inn af bekknum í kvöld. Hjá Hetti var Ramos með 14 stig og Newkirk með 11 en Siggi Þorsteins fór nokkuð hljóðlega um hús í kvöld með 6 stig. Þá var einnig gaman að fylgjast með orkunni í Sigmari Hákonarsyni.

Öllu á botninn hvolft þá bar leikur kvöldsins öll merki æfingaleiks en ef Hattarmenn fylgja eftir þessari ákefð sinni í varnarleiknum gætu þeir troðið sokk í margan spámanninn á komandi leiktíð. Fyrir Njarðvíkinga var spennandi að sjá til Veigars og Baldur Örn komst vel frá sínu.

Næst á dagskrá hjá Njarðvíkingum er Icelandic Glacial mótið í Þorlákshöfn dagana 16.-24. september en þar verða einnig heimamenn í Þór, Keflavík og Grindavík.

Svipmyndir úr leik kvöldsins