Sigur og enn á toppnumPrenta

Fótbolti

Njarðvík náði að leggja lið Fjarðabyggðar 2-1 á Njarðtaksvellinum í kvöld, „iðnaðarsigur“ myndi einhver hafa sagt og ekki skemmdi að enn og aftur léku veðurguðirnir við okkur. Nefnilega frábært veður til knattspyrnuiðkunar og létu áhorfendur sig ekki vanta. Gestirnir frá austfjörðum áttu tvö dauðafæri í upphafi leiks og hefðu hæglega getað komist í eitt, jafnvel tvö núll, en Hörður Fannar Björgvinsson markvörður bjargaði frábærlega í bæði skiptin.

Njarðvík sótti í sig veðrið eftir það og áttu nokkur hættuleg upphlaup og hálf-færi, eins og sagt er, en virkuðu frekar værukærir í fyrrihálfleik, án þess þó að leika illa. Það var því gegn gangi leiksins að Fjarðabyggð náði að komast yfir með laglegu marki eftir um hálftíma leik og okkar menn að sýna af sér sofandahátt í dekkningu. Mark gestanna gerði Hafsteinn Gísli Valdimarsson en hann lék með okkur sl. sumar. Staðan því 0 – 1 í hálfleik.

Þjálfararnir hafa væntanlega farið vel yfir málin í leikhlénu, því ekki voru liðnar nema um 3 mínútur af síðari hálfleik þegar Arnar Helgi Magnússon náði að setja boltann í netið eftir „uppteiknaða“ hornspyrnu. Virkilega vel að verki staðið. Njarðvík tók siðar í raun öll völd á vellinum án þess þó að skapa sér mjög afgerandi tækifæri, en einhvernvegin lá mark samt alltaf í loftinu.

Það var svo loks þegar um 5 mínutur voru eftir, að fyrirliðinn Andri Fannar Freysson náði að skora sigurmarkið með skoti frá markteig eftir darraðadans í vítateig gestanna. Fjarðabyggð setti töluverða pressu á okkur það sem eftir lifði leiks en náði ekki að gera jöfnunarmark.

Njarðvíkurliðið lék alveg ljómandi vel í kvöld gegn vel skipulögðu liði Fjarðabyggðar, í einum best dæmda leik sumarsins og gerði það sem til þurfti. Mjög mikilvæg 3 stig því í hús hjá okkar mönnum og tveggja stiga forskot í toppsætinu á Magna, sem gerði jafntefli í kvöld.

Tveir leikmenn léku í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík, Skotinn Kenneth Hogg og Portugalinn Bilro Gualter. Þá kvöddu þeir leikmenn Jón Veigar Kristjánsson og Magnús Þór Magnússon en þeir eru báðir á förum til náms í USA, við þökkum þeim fyrir sumarið. Nú taka menn langa helgi en næsti leikur okkar er gegn Aftureldingu föstudaginn eftir verslunarmannahelgi.

Leikskýrslan Njarðvík – Fjarðabyggð

Myndirnar eru úr leiknum í kvöld

IMG_8839   IMG_8856

IMG_8917   IMG_8890

IMG_8892   IMG_8873