Silfurlið 9. flokks heiðrað í LjónagryfjunniPrenta

Körfubolti

Nýverið fór fram fjórði og síðasti undanúrslitaleikur Njarðvíkur og Keflavíkur í Subwaydeild kvenna. Fyrir leikinn voru leikmenn og þjálfarar í 9. flokki kvenna kallaðir fram og áhorfendur fögnuðu þeim vel og innilega.

Liðið er nýkomið heim af Scania Cup í Södertalje í Svíþjóð þar sem það lék til úrslita í U15 ára flokki en tapaði naumlega 74-64 gegn KFUM Central Östermalm í úrslitum mótsins. Þetta öfluga Njarðvíkurlið hafði sigur í riðlakeppninnil og lagði svo BK Amager í 8-liða úrslitum, næsti andstæðingur í undanúrslitum var Malbas frá Svíþjóð og sigur þar kom Njarðvík í úrslitaleikinn gegn KFUM Central Östermal.

Úrslitaleikurinn var æsispennandi þar sem þær sænsku sigu fram úr á lokasprettinum. Í lok móts var Hulda María Agnarsdóttir valin Scania Queen og komst þar með í fámennan hóp ungra kvenna en alls hafa bara þrjár stúlkur frá Íslandi verið valdar Scania Queen. Þá var Hulda María í úrvalsliðið mótsins ásamt Söru Björk Logadóttur.

Í úrslitaleiknum var Kirstín Björk Guðjónsdóttir valin besti leikmaður leiksins og Hólmfríður Eyja Jónsdóttir var útnefnd „fighting spirit” úrslitaleiksins eða baráttujaxl leiksins.

Lið Njarðvíkur í árangi 2008 skipa eftirtaldir leikmenn:

Ásta María Arnardóttir
Fjóla Osmani
Kristín Björk Guðjónsdóttir
Matthildur Mía Halldórsdóttir
Hólmfríður Eyja Jónsdóttir
Hulda María Agnarsdóttir
Sara Björk Logadóttir
Þorgerður Tinna Kristinsdóttir
Daníela Eyjólfsdóttir

Þjálfarar hópsins eru: Rúnar Ingi Erlingsson, Bruno Richotti og Aliyah Collier

Myndir/ JBÓ og Guðrún Jóna: 9. flokkur kvenna, silfurlið Scania Cup 2023 í flokki U15 kvenna í Ljónagryfjunni og á neðri mynd við komuna til landsins í Leifsstöð ásamt þjálfara og fararstjórn.