Snjólfur: Samfélagið ekki ósvipað NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Snjólfur Marel Stefánsson er á vesturleið en hann mun spila körfubolta og læra viðskiptafræði við Black Hills State University sem leikur í 2. deild NCAA háskólaboltans. Snjólfur sagði við UMFN.is að hann byggist við því að lífið ytra yrði nokkuð frábrugðið því heima en sagði þó samfélagið sem hann væri að flytja í væri lítið og körfuboltinn nyti mikils stuðnings í samfélaginu… ring any bells?

Hvernig líst þér á ævintýrið framundan í Bandaríkjunum? Við hverju býst þú af lífinu þarna ytra?
Mér líst mjög vel á það. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig að bæta mig sem leikmann og er ég mjög þakklátur að eiga möguleika á því að prófa þetta. Lífið þarna úti verður vafalaust mikið öðruvísi en heima á Íslandi, en þetta er ekki stór bær sem ég er að flytja til þannig maður verður vonandi ekki of lengi að venjast þessu. Þegar ég fór í heimsókn til þeirra núna í vor fann ég hvað liðið nýtur mikils stuðnings frá samfélaginu í kringum sig svo það svipar mikið til Njarðvíkur að því leyti.

Hvað á svo að fara að læra?
Stefnan er að læra viðskiptafræði en það er allt opið og get ég breytt því eftir fyrsta árið ef hugurinn leitar annað.

Hvernig lítur þú til baka á tímann þinn í Njarðvík og svo auðvitað reynslunni frá öðrum liðum hérlendis sem þú hefur leikið með.
Tíminn minn með Njarðvík hefur á heildina litið verið mjög góður. Ég hef lært mikið á þessum árum og fengið að þroskast, bæði sem einstaklingur og sem leikmaður. Árið mitt með Selfoss var einnig mjög gott. Það var gott fyrir mig að fara þangað á láni svo ég gæti tekið næsta skref fram á við sem leikmaður. Þar fékk ég stærra hlutverk og fleiri mínútur sem var góð reynsla.

Sjáum við þig ekki örugglega í Njarðvíkurbúning í framtíðinni?
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, en mér þykir það líklegt.

Hvernig líst þér á komandi tímabil í Njarðtaks-gryfjunni?
Mér líst vel á það. Njarðvík er með nokkurn veginn sama kjarna og í fyrra fyrir utan Elvar sem að sjálfsögðu verður mikill missir af. En ég held að ef hópurinn er vel stilltur þá geta þeir náð mjög langt.