Steindór Gunnarsson ráðinn yfirþjálfari Sundráðs ÍRBPrenta

Sund

Eins og flestum er kunnugt verða breytingar hjá okkur í Sundráði ÍRB í haust. Anthony Kattan sem verið hefur yfirþjálfari hjá okkur síðastliðinn 5 ár hefur ákveðið að hætta hjá okkur og flytjast af landi brott.; Það má með sanni segja að koma hans til okkar hafi breytt mörgu. Við erum honum mjög þakklát fyrir góðan tíma sem hefur skilað okkur frábæru félagi og liði og mikið af nýjungum. Árangur liðsins hefur verið mjög góður og undir hans stjórn höfum við unnið AMÍ fjórum sinnum (stefnum á fimmta sigurinn í sumar), orðið Bikarmeistarar kvenna tvisvar sinnum og unnið til fjölmargra verðlauna á Íslandsmeistaramótum nú síðast á ÍM50 um helgina.; Þá hefur sundmönnum ÍRB fjölgað verulega í unglingalandsliðum og eigum við nú yfirleitt 75% af liðum sem fara á mót. Þá hefur einnig bæst verulega í hóp þeirra sundmanna ÍRB sem hafa farið yfir 700 FINA stig. Frábær árangur og við þökkum Ant kærlega fyrir vel unnin störf. Nefnd á vegum stjórnar Sundráðs ÍRB fór strax í haust af stað við að leita að nýjum þjálfara fyrir liðið okkar. Við þurftum ekki að leita langt yfir skammt því innan okkar raða er sá íslenski þjálfari sem hefur náð hvað bestum árangri með íslenskt sundlið á undanförnum árum. Þetta er auðvitað Steindór Gunnarsson sem þjálfað hefur sund í Reykjanesbæ frá 1991, fyrst hjá UMFN og síðan hjá Sundráði ÍRB. Hann þjálfaði Ólympíufarana Erlu Dögg Haraldsdóttur og Árna Má Árnason. Hann er ásamt því að vera farsæll félagsþjálfari, fyrrverandi unglingalandsliðsþjálfari, landsliðsþjálfari og var þjálfari á Ólympíuleikum 2004. Hann átti tvo sundmenn á Ólympíuleikunum 2004, tvo á Ólympíuleikunum 2008 og þrjá sundmenn á HM2003. Hann hefur einnig verið landsliðsþjálfari á Smáþjóðaleikum margoft. Hann var valinn þjálfari ársins árin 1995, 2006, 2007 og 2008, oftar en nokkur annar þjálfari á Íslandi. Steindór Gunnarsson verður næsti yfirþjálfari Sundráðs ÍRB til þriggja ára. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn í nýja stöðu og væntum mikils af hans störfum.