Suðurnesjaslagur í Ljónagryfjunni í kvöld!Prenta

Körfubolti

Í kvöld lýkur fimmtu umferð í Subwaydeild karla þegar Njarðvíkurljónin taka á móti Grindavík í Suðurnesjaslag kl. 20:15 í Ljónagryfjunni. Fyrir leik kvöldsins er Njarðvík í 4. sæti með 6 stig og geta okkar menn tyllt sér á toppinn með Val, Breiðablik og Keflavík með sigri. Grindvíkingar eru í 6.-9. sæti með 4 stig eins og Höttur, Tindastóll og Stjarnan.

Fyrri leikur kvöldsins er viðureign KR og Hattar kl. 18:15 á Meistaravöllum og svo tekur við leikur Njarðvíkur og Grindavíkur í Ljónagryfjunni kl. 20:15 en báðir leikir verða í beinni á Stöð 2 Sport. Við hvetjum Njarðvíkinga til að fjölmenna og styðja okkar menn til sigurs.

Leikur kvöldsins er SMASS-leikur en það þýðir að vallargestir fá að taka SMASS-skot á milli leikhluta og vinna sér inn glæsileg tilboð frá SMASS á Fitjum. Kíkið í „Bogann” fyrir leik, þar verður tekið vel á móti áhorfendum.

Áfram Njarðvík