Sundlið ÍRB þrefaldir bikarmeistarar!Prenta

Sund

Um helgina varð liðið okkar þrefaldur Bikarmeistari, en það hefur ekkert annað lið náð áður. Við urðum Bikar­meist­arar í bæði karla- og kvenna­flokki í 1. deild ásamt því að verða líka Bikarmeistari kvenna í 2. deild. Liðin okkar voru hreint út sagt frábær í þessari keppni, baráttan, stemmingin, gleðin og hvatningin hjá okkar fólki skar sig úr og liðsmenn annara félaga dáðust að stemmingunni sem ríkti hjá okkur. Strax frá fyrsta sundi sýndu liðin okkar klærnar og slökuðu hvergi á fyrr en eftir síðasta sund. Í svona látum þá gefur eitthvað eftir og það var ekki neitt smáræði. Því karlasveitin gerði sér lítið fyrir og setti Íslandsmet í 4 x100m skriðsundi. Í sveitinni voru þeir Árni Már Árna­son, Kristó­fer Sig­urðsson, Davíð Hildi­berg Aðal­steins­son og Þröst­ur Bjarna­son. Sveit­in synti á 3.23,49 mín­út­um en gamla metið átti sveit Sund­fé­lags Hafn­ar­fjarðar, 3:24:25 síðan á ÍM 25 2015. Kvennasveitin átti líka mjög gott sund í 4 x 100m skriðsundi í síðasta sundinu í 1. deildinni. Þar voru þær eingöngu 4/100 frá gildandi íslandsmeti stúlkna en settu þessi stað innanfélagsmet bæði í kvenna og stúlknaflokki. Karlarnir settu jafnframt innanfélagsmet í 4 x 100m fjórsundi, en gamla metið þar var frá 2008. Til hamingju með árangurinn sundfólk ÍRB. Mögnuð helgi hjá mögnuðu fólki.