HK úr Kópavogi sótti Njarðvíkinga heim í Inkasso-deildinni karla í kvöld á Njarðtaksvöllinn og hafði nokkuð öruggan sigur gegn okkar mönnum í fremur tíðinda litlum leik, 0-2.
HK var mun meira með boltann í byrjun leiks án þess að skapa sér nein hættuleg færi, en þegar líða fór á leikinn óx ungmennafélagsmönnum ásmegin og náðu oft upp góðum samleik, en það var eins og meiri áræðni og þor vantaði til þess að skapa sér almennileg færi, gegn reyndar fyrna sterkri vörn HK.
Undir lok fyrri hálfleiks komu svo tvö mörk gestanna með 5 mín. millibili. Og þar við sat.
Síðarihálfleikur var einnig fremur tíðindalítill og lítið um færi. Það var ekki fyrr síðustu 20. mínúturnar, eða svo, að smá harka og fjör færðist í leikinn, þegar Njarðvík færði sig framar á völlinn og setti aukið púður í sóknarleikinn til þess freista þess að minnka muninn.
Þrátt fyrir ágætis rispur og eitt dauðafæri tókst það ekki og HK sigldi heim nokkuð öruggum sigri. Án efa besta liðið sem hefur sótt okkur heim sem af er sumars. Vel spilandi og gríðar vel skipulagt.
Leikurinn var vel dæmdur, prúðmannlega leikinn og ekki mikið um ljót brot eða vafaatriði.
Það var þessvegna furðulegt að sjá suma leikmenn HK kasta sér niður trekk í trekk af minnsta tilefni, eins og þeir væru með alvarlega áverka. En stóðu svo upp örfáum andartökum síðar. Sem betur fer er þetta sjaldgæf sjón, en hvimleið er hún og mætti alveg áminna menn fyrir slíkan leikaraskap.
Næsti leikur okkar er á Grenivík gegn Magna um þar næstu helgi, heldur lengra milli leikja núna vegna áhrifa frá HM.
Leikskýrslan Njarðvík – HK
Skýrslan Fótbolti.net
Fótbolti.net – viðtal við Rafn
Myndirnar eru úr leiknum í kvöld