Það er ekki nema von að maður spyrji sig hvað þarf til að stoppa þetta KR lið. Í kvöld mætti liðið án Darra Hilmarssonar og voru langt frá því að vera sannfærandi í sínum leik. Samt kreysta þeir sigur gegn nokkuð spræku liði Njarðvíkinga. Skýringin þetta kvöldið líkast til sú að Njarðvíkingar dugðu aðeins í 30 af 40 mínútum leiksins. Allur vindur virtist vera úr liðinu á lokasprettinum og mulningsvél KR hrökk í gang á ögurstundu og skilaði 76:86 sigri. Njarðvíkingar mættu sprækir til leiks á nýju ári og ætluðu sér svo sannarlega að láta toppliðið hafa fyrir hlutunum þetta kvöldið. Grimmur varnarleikur þeirra virkaði sem vítamínssprauta á liðið á meðan KR-ingar líktust boxara sem riðaði eftir gott högg frá andstæðingi sínum. En þessi boxari hefur staðið af sér mörg högginn og þrátt fyrir allt leiddu þeir KR með 1 stigi í hálfleik. Í þriðja leikhluta hélt stöðu baráttan áfram og liðin nánast skiptust á að skora og mikið jafnræði var á með liðunum. Á þessum kafla fór mikinn Stefan Bonneau, nýr erlendur leikmaður þeirra Njarðvíkinga. Kappinn var að sýna fádæma hæfileika með knöttinn og lofar vissulega góðu fyrir þá grænklæddu. Svo mikil var sýning hans að á tímabili truflaði það í raun sóknarleik liðsins þar sem hans eigin liðsfélagar voru sjálfir farnir að fylgjast með og bíða eftir hans næsta “uppistandi” Þetta kann nú aldrei góðri lukku að stýra og 35 stig frá kappanum í öllum regnboganslitum dugðu skammt að þessu sinni. Hugsanlega má gagnrýna það að einhverju leyti að kappinn fékk enga hvíld í leiknum og það sýndi sig á lokasprettinum. Það var einmitt þá sem að KR létu til skarar skríða og á örskot stundu höfðu þeir breytt hnífjöfnum leik sér í hag með 13 stiga forskoti. Njarðvíkingar stóðu eftir á gólfinu og klóruðu sér í hausnum algerlega ómeðvitaðir hvað hafði gerst fyrir þá miklu elju sem þeir höfðu sýnt fram að þessu. En sem fyrr segir þá virtist allur vindur í liði leiksins og eftir þetta áhlaup KR urðu menn hræddir og hausinn komin niður í bringu allt of snemma. Þetta sterka áhlaup gestanna drap alla trú heimamanna á því að sigur gæti unnist og þar má segja að munur liðanna lá þetta kvöldið. Ef einhverntímann var möguleiki á að sigra þetta KR lið þá var það í kvöld. Liðið var alls ekki að spila vel, lykil leikmenn langt frá sínu besta og meira segja vantaði einn þeirra. Undirritaður telur að fátt muni koma til með að stoppa þetta KR lið að endurtaka leik sinn frá síðasta tímabili. Af leikmönnum þá ber að hrósa þeim Finn Atla Magnússyni og Brynjari Björnssyni hjá KR en þeir stigu upp þegar á þurfti. Brynjar tók við leikstjórnanda hlutverkinu þegar Pavel fékk sína 5 villu um miðbik fjórða leikhluta og stýrði liðinu til sigurs. Finnur Atli einfaldlega skilaði sínu og gott betur nokkuð áfallalaust í teignum. Hjá Njarðvíkingum var Stefan Bonneau í algerum sérflokki en þreyta fór að segja til sín á lokasprettinum. Kappinn setti niður 35 stig. Logi Gunnarsson var honum næstur með 20 stig. Mynd/Texti: Karfan.is