Fyrirliðinn Logi Gunnarsson kom nýverið með skemmtilega færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann segir m.a. „Ég tek svo allavegana eitt tímabil í viðbót. Þetta er bara of gaman!“
Á tímabilinu var Logi með 8,3 stig, 1,5 fráköst og 1,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í Njarðvíkurliði sem varð bikar- og deildarmeistari en féll út í undanúrslitum gegn Tindastól.
Eins og glöggir hafa tekið eftir er undirbúningur fyrir næstu leiktíð í Subwaydeild karla þegar hafinn því í gær var endursamið við Mario Matasovic og nú Logi búinn að gefa það út að hann verði áfram. Færslu Loga í heild sinni má sjá hér:
25. tímabilið á enda. Endaði ekki eins og við vildum. Engu að síður frábært tímabil hjá félaginu okkar. Fyrstu titlarnir í mörg ár unnust. Bikar og deildarmeistaratitilar hjá körlunum og kvennaliðið okkar Íslandsmeistarar beint úr 1.deildinni. Ótrúlegur árangur og einstakt afrek hjá þeim.
Læt fylgja myndir af tímabilinu og eina gamla frá fyrsta titlinum , “97 – “98 tímabilinu.
Ég tek svo allavegana eitt tímabil í viðbót. Þetta er bara of gaman 💚