Njarðvík lagði 4. deildarlið Kórdrengja með tveimur mörkum gegn engu, í 2. umferð mjólkurbikarkeppninnar á Framvelli í kvöld.
Leikurinn var fremur tilþrifalítill, en þó að lið Kórdrengja úr Reykjavík leiki í 4. deild, þá er liðið skipað mörgum öflugum leikmönnum sem hafa mikla reynslu úr efstu deildum. Miðað við núverandi mannskap, og aðeins meiri leikæfingu, gæti lið þeirra auðveldlega leikið í 2. deild. Þeir lágu vel til baka og voru mjög skipulagðir í sínum varnarleik.
En Njarðvíkingar gerðu það sem þurfti og sýndu mikla þolinmæði við að brjótast í gegnum öfluga 10 manna vörnarmúr heimamanna og í raun var sigurinn aldrei í neinni hættu. Fyrra mark okkar gerði Luka Jagacic á 34. mín. með afar glæsilegum hætti, er hann mikilli ferð, afgreiddi fyrirgjöf frá vinstri með viðstöðulausu skoti frá markteigshorni upp í þaknetið við stöngina nær. Gríðarleg gæði í þeirri afgreiðslu. Eftir markið settum við töluverða pressu á Kórdrengina til þess að bæta í foristuna, en inn vildi boltinn ekki og staðan því 0-1 eftir fyrri hálfleik.
Sama var upp á teningnum í seinnihálfleik. Njarðvík með boltan meira eða minna, án þess þó að ná að hrista heimamenn almennilega af okkur. Þó áttum við nokkur úrvalsfæri sem hefðu átt að skila mörkum. Kórdrengir voru samt alltaf ágengir þegar þeir fengu möguleika á hröðum upphlaupum og í föstum leikatriðum. Voru einhvernveginn alltaf líklegir til þess að setja á okkur mark, gerðumst við sekir um kæruleysi eða mistök af einhverju tagi.Enda ræddu áhangendur Njarðvíkinga á pöllunum um að mikilvægt væri að setja annað mark til að tryggja sigurinn. Það hafðist svo loks á 70. mín. þegar Andri Fannar skoraði úr víti eftir að Kenny var felldur innan vítateigs. 0-2 og sigurinn í höfn.
Njarðvíkingar eru þar með í pottinum þegar það verður dregið í hádeiginu á mándaginn í 32 liða úrslit Mjólkurbikarsins. Sigurbergur Bjarnason kom inná stuttu fyrir lok leiksins og lék þar með sinn fyrsta mótsleik fyrir Njarðvík.
Myndirnar eru úr leiknum í kvöld.