Þrenna hjá Dinkins í sigri gegn StjörnunniPrenta

Körfubolti

Njarðvík lagði Stjörnuna að velli í Bónus-deild kvenna miðvikudagskvöldið 22. janúar síðastliðinn. Lokatölur 101-93 í framlengdum spennuslag.

Óhætt er að segja að Brittany Dinkins hafi farið á kostum í leiknum en hún gerði 48 stig, tók 11 fráköst, gaf 11 stoðsendingar og var með 4 stolna bolta, framlagsstig upp á 61 punkt! Enn ein mögnuð frammistaða frá Dinkins sem er framlagshæsti leikmaðurinn í deildinni um þessar mundir með 32 framlagspunkta að meðaltali í leik.

Eftir sigurinn í gærkvöldi er Njarðvík með 20 stig í 3.-4. sæti eins og Keflavík, Þór Akureyri er í 2. sæti með 22 stig og Haukar á toppi deildarinnar með 24 stig.

Næsti deildarleikur hjá Ljónynjum er gegn Hamar/Þór Þorlákshöfn þann 29. janúar en þá mætast liðin í Icelandic-Glacial Höllinni í Þorlákshöfn kl. 19.15.

Áfram Njarðvík