Tíu ár frá fyrsta leiknum á NjarðtaksvellinumPrenta

Fótbolti

Nú í sumar eru liðin 10 ár frá því að við fluttum starfsemi okkar af gamla Njarðvíkurvellinum á nýtt íþróttasvæð við Afreksbraut. Fyrsti leikurinn sem leikinn var á nýja svæðinu var leikur milli Njarðvík og Selfoss í Íslandsmótinu í 3. flokki  þann 31. maí 2007. Fyrsti heimaleikur meistaraflokks var ekki leikinn fyrr en 2. júlí þegar Reynismenn komu í heimsókn í 1. deild en þeim leik lauk 2 – 2.
Leikskýrslan úr leik Njarðvík – Reynir 2007

Frá því að nýja svæðið var tekið í notkun hafa verið leiknir 444 knattspyrnuleikir frá 2007-16, bæði móts og æfingaleikir. Keppt hefur verið á svæðinu í öllum deildum nema í 3. deild og öllum aldurs flokkum yngri flokka. Svæðið allt í heild er um 22.000 fermetrar að stærð, allt þakið grasi. Frá upphafi hefur svæðið borðið nafnið Njarðtaksvöllurinn.

Mynd/ Styrmir Gauti og Andri Fannar voru í leikmannahópnum á fyrsta leiknum.

völlurinn 2007   stuka
Mynd/ Völlurinn eins og hann var upphaflega og full stúka á leik Njarðvík og Grindavík í 1.deild 2007

Leikmannahóp okkar í þessum fyrsta leik skipuðu þeir; Andri Fannar Freysson, Arnór Jensson, Bjarni Benediktsson, Guðjón Hlíðkvist Björnsson, Eyþór Kristjánsson, Hannes Kristinn Kristinsson, Hannes Smárason, Haukur Örn Harðarson,Hrannar Jónsson  Jón Óli Ómarsson, Ísleifur Guðmundsson, Kristjón Freyr Hjaltested, Magnús Már Ágústsson, Narin Phoonsawat, Stefán John Turner og Styrmir Gauti Fjeldsted. Allt drengir fæddir 1991 – 92 og þjálfari liðsins var Hermann Rúnar Hermannsson. Leiknum lauk með sigri okkar  7 – 2 og Kristjón Freyr skoraði fimm af mörkum okkar en Andri Fannar og Stefán John eitt hvor. Í liði Selfyssinga var meðal annara Jón Daði Böðvarsson sem nú leikur með Wolves i Englandi. Því miður er ekki til mynd af liðinu sem lék þennan leik.

Þann 16. júní n.k verða liðin 60 ár frá því að Njarðvíkurvöllur var vígður en UMFN notaði hann í um 50 ár frá 1957 til 2006. Þá léku unglingalið frá Njarðvík og Víði Garði setningarleikinn og völlurinn var vígður með athöfn, enda ekkert smá mannavirki á þeim tíma.

U19 2007   Holland - Frakka
Myndir/ U-19 ára landslið Íslands sem lék við Skota og mynd úr leik Hollands og Frakka.

Tveir landsleikir hafa verið leiknir á aðalkeppnisvellinum. Sá fyrri var leikur vináttuleikur U – 17 milli Íslands og Skotlands, sem leikinn var 10. september 2007. Honum lauk með sigri Íslands 1 – 0. Margir kappar sem seinna áttu eftir að vekja athygli léku þar, m.a. Gylfi Þór Sigurðsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og okkar leikmaður þá Frans Elvarsson. Hinn leikurinn var stórleikur Hollands og Þýskalands á norðurlandamóti U-16 ára stúlkna þann 3. júlí 2008. Þá hafa fjölmörg landslið sem koma hingað til lands æft á vellinum og einna þekktast er landslið Wales sem skartaði mörgum stjörnum þ.m Craig Bellamy og svo Liverpool stjórunum John Toshack og Roy Evans.

Roy Evans   Landslið Wales
Myndir/ Roy Evans var léttur á sér í heimsókn sinni og allir helstu fjölmiðlar fylgdust með æfingu Wales

Árið 2010 voru gerðar breytingar á svæðinu og keppnisvellinum var snúið og byggð áhorfendastúka sem tekur 499 manns í sæti. Þá hefur deildin gróðursett aspir umhverfis svæðið, sem í framtíðinni á vonandi eftir að bæta ásýnd þess og skýla gegn veðri. Það er óhætt að segja að framkvæmdum við svæðið sé engan vegin lokið, en heildarmyndin á svæðinu verður eflaust aldrei sú sem hún átti að vera samkvæmt fyrstu hugmyndum. Það er stefna okkar að gera svæðið betra en það er í dag og mikilvægast í því sambandi er að ráðast í bygginu á endanlegu vallarhúsi eða húsi sem gæti tengst einhverri annari íþróttastarfsemi, ásamt því að setja þak á stúkuna.

völlur 3   völlur 4
Myndir/ Upphaflega útfærslan á vallarsvæðinu.