Þá eru aðeins tveir leikir eftir í deildarkeppninni í Domino´s-deild karla en síðustu tveir deildarleikir hafa verið afdrifaríkir, fjögur súr stig sem runnu okkur úr greipum þar með tapi gegn Stjörnunni og ÍR.
Það þýðir ekkert að dvelja við þetta bras og ekkert annað uppi á teikniborðinu en að taka fjögur stig í þessum tveimur leikjum sem eftir eru og svo er úrslitakeppnin handan við hornið.
Án þess að dvelja of lengi við ÍR-leikinn þá var Elvar Már Friðriksson atkvæðamestur í þeim leik með 32 stig, 9 stoðsendingar og 9 fráköst og næstur honum var Mario Matasovic með 19 stig og 11 fráköst og Eric Katenda bætti við 18 stigum og 12 fráköstum. Sigurður Gunnar Þorsteinsson reyndist okkar mönnum erfiður með 21 stig og 20 fráköst en heilt yfir var varnarleikur okkar manna ekki að virka sem skyldi en Ljónin vita það best sjálf og verður forvitnilegt að sjá hvernig okkar menn svara síðustu súru eplum í næstu tveimur leikjum.
Næst á dagskrá er útileikur gegn Breiðablik 10. mars og síðasti deildarleikurinn er heimaleikur 14. mars gegn Skallagrím í Ljónagryfjunni. Eftir það er úrslitakeppnin komin í öllu sínu veldi en það verður forvitnilegt að sjá hverjir andstæðingar okkar verða í fyrstu umferð.