Stúlknaflokkur Njarðvíkur hefur leikið fjóra leiki á tímabilinu. Liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum, sem leiknir voru í október. Í Hafnarfirði gegn Haukum 78-53 og 92-50 á heimavelli Keflvíkinga. Þetta voru ekki aðeins fyrstu leikir liðsins heldur einnig fyrstu kynni margra leikmanna og fyrstu æfingarnar liðsins í leiðinni. Ekki verður framhjá því litið að lið Keflavíkur í stúlknaflokki er gríðarsterkt en stúlkurnar okkar hefðu getað gert betur gegn Haukum og mun liðið vonandi ná að hefna fyrir úrslitin siðar á árinu.
Þann 12. nóvember síðastliðinn, eftir nokkrar æfingar saman, tóku stúlkurnar á móti KR í Ljónagryfjunni. Fyrirfram mátti búast við hörkuleik en Njarðvíkurstúlkur mættu rétt stemmdar og gáfu frumkvæðið í leiknum aldrei eftir. Lokatölur 100-73. Eva Sól Einarsdóttir gaf tóninn með baráttu sinni í vörninni en Hulda Bergsteinsdóttir fór fyrir hópnum sóknarmegin að þessu sinni og lék sér að sterkum miðherjum KR-inga. Þá lét Ingibjörg Grétarsdóttir rigna þristum þegar hún kom inn á. Heilt yfir var að þó sterkur og þéttur varnarleikur sem gerði gæfumuninn.
Síðasta þriðjudag léku stúlkurnar svo gegn Fjölni/Stjarnan á útivelli og höfðu auðveldan sigur 104-64. Fjölnisstúlkur tefldu aðeins fram 7 leikmönnum og áður en fyrri hálfleikur var úti hafði einn þessara sjö orðið fyrir meiðslum. Leikurinn var þó jafn framan af enda gekk Njarðvíkurstúlkum bölvanlega að hitta úr auðveldum færum á meðan Fjölnis-Stjörnu-stúlkur „þekktu sínar körfur“ og settu niður fjölda erfiðra skota. Mögulega hefði fámenni Fjölnismanna ekki komið að sök hefðu dómarar leiksins ekki tekið nokkuð harða línu á snertingar leikmanna á milli. Villuvandræði voru því orðin nokkur í hálfleik og ekki batnaði ástandið í þeim seinni. Um miðbik fjórða leikhluta fékk síðan annar leikmaður Fjölnis/Stjörnunnar sína fimmtu villu og stóð Sævaldur þjálfari þeirra uppi ráðalaus, með tóman bekk. Buðust Njarðvíkingar til að „lána“ leikmann sem og til að taka leikmann af velli svo jafnt yrði í liðum. Ekki féllust dómarar leiksins á þær ráðstafanir og brá þjálfari Njarðvíkur því á að staðsetja einn varnarmann við ritaraborð og léku þá fjórir gegn fjórum leikinn á enda. Þótt sigurinn hafi orðið auðveldur þá býr meira í Fjölni/Stjarnan en þessi leikur sýndi. Bæði voru leikmenn meiddir og erlendis og búast má við meira spennandi leik milli þessara liða næst. Að öðrum ólöstuðum þá var Hrund Skúladóttir lykilleikmaður njarðvískra í leiknum. Gerði hún út um þá spennu sem í leiknum var með vel völdum þristum undir lok fyrri hálfleiks auk þess sem hún axlaði miðherjahlutverkið um stund og gaf fjölda stoðsendinga.
Bikarkeppnin er næst á dagskrá hjá stúlknaflokki og reynir einmitt á hvort Fjölnir/Stjarnan bætir sitt lið…og bætir við liðið leikmönnum því liðin drógust saman í bikarnum, nú í Ljónagryfjunni. Ekki er komin föst dagsetning á leikinn en hann verður á tímabilinu 22-30. nóvember nk.