Anna og Lára Ásgeirsdætur hafa ákveðið að leggja körfuboltaskó sína á hilluna og munu því ekki leika meira með kvennaliði Njarðvíkur. Systurnar sem verða 23 ára á þessu ári hafa þrátt fyrir ungan aldur lagt risavaxin lóð á vogarskálar okkar Njarðvíkinga.
Báðar hætta þær af persónulegum ástæðum í sátt og samlyndi við stjórn og þjálfarateymi liðsins. Anna og Lára léku upp alla yngri flokkana í Njarðvík og urðu þar m.a. Íslandsmeistarar, þær léku einnig með Njarðvík í 1. deild kvenna, þá á grunnskólaaldri, og fóru upp um deild með liðinu. Síðar fögnuðu þær Íslandsmeistaratitli með Njarðvík og bikarmeistaratitli á síðustu leiktíð. Óhætt er því að segja að ferill þeirra systra hafi verið glæstur en þær eiga einnig báðar landsleiki að baki með yngri landsliðum Íslands.
„Anna og Lára eru frábærir félagsmenn og stórkostlegir liðsmenn. Anna á sérstaklega mikið hrós skilið fyrir að hafa dugað svona lengi miðað við erfiða meiðslasögu sem leikmaður. Aðgerðir og fleira settu strik í reikning hennar en að mati þeirra beggja var nú kominn tími til að loka þessum körfuboltakafla hjá sér,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur.
Anna Lilja á að baki 132 leiki með Njarðvík í deild og úrslitakeppni í úrvalsdeild kvenna, Lára á að baki 112 leiki þar sem hún dvaldi um hríð í Bandaríkjunum við nám. Systurnar ná því 100 leikja klúbbnum í úrvalsdeild þrátt fyrir ungan aldur.
Stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur þakkar bæði Önnu og Láru fyrir sitt öfluga framlag til deildarinnar í gegnum árin en framlag þeirra hefur verið bráðmyndarlegt bæði innan og utan vallar.
Myndir af systurnum síðustu árin:




