Þeir Mikael Máni Möller, Guðjón Logi Sigfússon og Kristofer Mikael Hearn hafa allir þrír samið við Njarðvík fyrir komandi leiktíð í Bónus-deild karla. Þá verða kapparnir einnig fyrirferðamiklir í ungmennaflokki Njarðvíkur sem lét vel að sér kveða á síðasta tímabili.
Allir eru peyjarnir uppaldir Njarðvíkingar og við það að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki en af þeim þremur er það helst Mikael Máni Möller sem við höfum fengið að sjá taka nokkrar mínútur í úrvalsdeildinni. Bæði Mikael Máni og Kristofer eru bakverðir en Guðjón Logi framherji.
„Það er mikilvægt að vera með stóran og góðan æfingahóp í meistaraflokki sem og sterkan ungmennaflokk en allir þessir piltar munu fá að spreyta sig á báðum vígstöðum. Við erum með fjölmennan hóp ungra leikmanna sem munu í vetur og á næstu árum gera sterkt tilkall í að komast í Njarðvíkurbúninginn,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari meistaraflokks karla og Halldór Karlsson formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur tók í ekki ósvipaðan streng.
„Bæði ég og Rúnar þekkjum það sjálfir sem fyrrum leikmenn hversu mikilvægt það er að hvetja strákana áfram, jafnvel ýta þeim áfram og undirbúa þá fyrir áskoranir í úrvalsdeildinni. Við í Njarðvík höfum í gegnum áratugina verið ófeimin við að tefla fram okkar ungu leikmönnum og munum halda áfram að gera það.”
Efsta mynd/ Mikael Máni Möller og Halldór Karlsson formaður KKD UMFN