Unglingaflokkur bikarmeistari 2019Prenta

Körfubolti

Þá er bikarvikan afstaðin og uppskeran bikartitill hjá unglingaflokki karla eftir sterkan og sannfærandi sigur gegn KR síðastliðinn sunnudag. Til hamingju herramenn! Njarðvík átti þrjú önnur lið í bikarúrslitum sem urðu að fella sig við silfrið þetta árið en það voru 9. og 10. flokkur kvenna og meistaraflokkur karla.

Tíundi flokkur kvenna reið á vaðið og mætti Grindavík í úrslitum í hörkuleik. Lokatölur 51-44. Karlalið Njarðvíkur var næst í röðinni og mætti sterku liði Stjörnunnar. Okkar menn hittu ekki á sinn besta dag og urðu því að fella sig við 68-84 tap. Unglingaflokkur karla mætti KR eins og áður hefur komið fram þar sem lokatölur voru 104-88 og Jón Arnór Sverrisson valinn maður leiksins með glæsilega þrennu, 24 stig, 16 fráköst og 12 stoðsendingar. Níundi flokkur kvenna lokaði bikarhelginni fyrir Njarðvík er liðið mætti stöllum sínum úr Keflavík. Lokatölur 64-35 Keflavík í vil.

Það er vel við hæfi að þakka Njarðvíkingum fyrir stuðninginn þessa helgina. Að sjá iðagræna Laugardalshöll í bikarúrslitum var einkar ánægjulegt sem og góða mætingu hjá yngri flokkunum. Það er óhætt að varpa því fram að Ljónahjörðin sé besta stuðningsfólk landsins!

Nú er nokkur bið í næsta leik í Domino´s-deild karla en okkar menn fá tækifæri til þess að sýna sitt rétta andlit gegn Garðbæingum þann 4. mars næstkomandi er liðin mætast í Garðabæ. Sá leikur mun hafa gríðarlega mikla þýðingu í baráttunni um deildarmeistaratitilinn og því er ekki úr vegi að hvetja alla Njarðvíkinga til að taka daginn frá og fjölmenna í Garðabæ.

Kvennaliðið okkar er svo á ferðinni annað kvöld þegar það mætir ÍR í 1. deild kvenna kl. 19:15 í Seljaskóla. Fjögur stig skilja liðin að í deildinni og því sigur mikilvægur til að halda ÍR fjarri í töflunni þar sem fjögur efstu lið deildarinnar halda áfram inn í úrslitakeppni.

Að lokum er við hæfi að óska körfuknattleiksfólki öllu til hamingju með bikarvikuna sem er orðin að glæsilegri körfuboltahátíð og verður gaman að fylgjast með hvernig henni mun vinda fram næstu árin. Við ljúkum þessari bikarsamantekt á færslu frá Einari Árna Jóhannssyni þjálfara meistaraflokks karla: