Unglingaráð KKD Njarðvíkur hefur gert samstarfssamning við Haus hugarþjálfun.Prenta

Körfubolti

Unglingaráð KKD Njarðvíkur hefur gert samstarfssamning við Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafa sem stýrir Haus hugarþjálfun.

Haus hugarþjálfun veitir íþróttafólki, íþróttaforeldrum, íþróttaþjálfurum og íþróttaliðum fræðslu og þjálfun um hvernig eigi að styrkja þá hugarfarslegu þætti sem eru grundvöllur árangurs og ánægju í íþróttum.

Vinnan sem Haus hugarþjálfun kemur með inn í deildina er vönduð og viðamikil vinna með þrjá lykil-hugarfarslega þætti, einbeitingu, sjálfstraust og liðsheild. Markmið vinnunar er að færa körfuboltafólkinu okkar verkfæri sem gerir þeim kleift að vinna að styrkingu þessara hugarfarslegu þátta til jafns á við styrkingu tæknilegra- og líkamlegra þátta. Vinnan felur í sér fjóra fyrirlestra fyrir iðkendur, styrktarprógramm sem gerir iðkendum kleift að vinna með fræðsluna inni á æfingum og í leikjum, þjálfarahandbók og þjálfarafundi sem tryggir öfluga eftirfylgni þjálfara með efni fyrirlestranna á æfingum og í leikjum. Þetta námskeið Haus hugarþjálfunar á sér engan sinn líka. Aldrei hefur verið gengið eins langt í að innleiða reglulega þjálfun hugarfarslegra þátta inn í hefðbundna æfingarútínu ungs íþróttafólks og með þessu námskeiði. Frekari upplýsingar má fá á heimasíðunni http://haus.is/

Vinna Hreiðars með þjálfurum hefst um miðjan febrúar og í framhaldi mun Hreiðar hitta iðkendur i 7. flokki og eldri. Vinna með yngri iðkendur fer fram í gegnum þjálfara flokkana sem fá leiðsögn Hreiðars.

Þessi viðbótarþjálfun er iðkendum að kostnaðarlausu og er styrkt af Bláa lóninu, barna- og unglingaráði auk annarra.